Íslenskukunnátta eigi að vera skilyrði

Ásmundur vill að leigubílstjórar tali íslensku.
Ásmundur vill að leigubílstjórar tali íslensku. Samsett mynd/mbl.is/Unnur Karen

Flýta þarf endurskoðun laga um leigubílaakstur sem tóku gildi á síðasta ári og ætti íslenskukunnátta að vera lágmarksskilyrði til þess að fá að aka leigubíl.

Þetta segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Ásmundur birti færslu á facebook í gær þar sem hann sagði leigubílstjóra og viðskiptavini eiga inni afsökunarbeiðni hjá þeim þingmönnum sem samþykktu ný lög um leigubíla undir lok árs 2022.

„Það er alveg klárt að löggjafinn hefur aldrei ætlað sér það að einhverjir einstaklingar sem hafa ekki lágmarksþekkingu á móðurmálinu og þurfa ekki að taka prófið á íslensku, mega kalla eftir aðstoð utan úr bæ - ég velkist ekki í vafa um það að ekki nokkur maður hafi ætlað sér að það yrði framkvæmdin,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.

Segir ákveðna leigubílstjóra líta á konur sem gálur

Í hópi hand­hafa akst­urs­leyf­is til leigu­bíla­akst­urs bera 163 er­lent nafn, eða tæp­ur fimmt­ung­ur. Lang­stærst­ur hluti þeirra er af ar­ab­ísk­um upp­runa, sem ráða má af nafni viðkom­andi. Þetta má sjá á lista Sam­göngu­stofu yfir at­vinnu­leyf­is­hafa í leigu­bíla­akstri.

„Þessir menn, ég veit ekki hvað má mikið segja um það á opinberum vettvangi, en þeirra hugsunarháttur gagnvart konum er bara með þeim hætti að konur sem eru að koma af skemmtanalífinu - í þeirra augum eru þetta bara gálur sem hafa engin réttindi,“ segir Ásmundur.

Það þurfti að færa markaðinn í meiri frjálsræðisátt

Ásmundur er sannfærður um að færa þurfti leigubílamarkaðinn í meiri frjálsræðisátt eins og gert var Þegar lögin voru samþykkt. Núverandi lög þurfi hins vegar að endurskoða í ljósi fordæmalausra fregna um hvernig ástandið er orðið.

Í lögunum kemur fram ákvæði um að hægt sé að endurskoða lögin árið 2025. Ásmundur kallar hins vegar eftir því að þingið endurskoði lögin núna sem allra fyrst.

„Einhvern veginn hefur framkvæmdin farið algjörlega út á tún miðað við það sem menn ætluðu sér,“ segir hann.

Lágmarksskilyrði að kunna íslensku

Ásmundur segir að það eigi að vera lágmarksskilyrði fyrir leigubílstjóra að kunna íslensku. Nefnir hann sem dæmi að fólk sem nýti sér þjónustuna séu oft eldri borgarar, fólk með fatlanir og aðrir sem hafi ekki allir jafn gott vald á erlendum tungumálum.

Þá nefnir hann einnig sögusagnir um slæma upplifun fólks hjá erlendum leigubílstjórum.

„Mér finnst að þegar einstaklingur ætlar að fara út í svona þjónustu, taka við peningum og gjaldi sem þarf að gefa upp til skatts og ýmislegt annað, að þá hafi hann lágmarkskunnáttu á því sem er að gerast í landinu. Að hann sé fær um að stjórna því [tungumálinu] og koma fram við yfirvöld á skiljanlegu íslensku máli – aðallega þá kúnnanna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert