Réðust á lækni sem neitaði að breyta vottorði

Ljósmynd/Colourbox

Gigtarlæknirinn Árni Tómas Ragnarsson segir að tveir karlmenn hafi ráðist á sig á læknastofu sinni í vikunni þegar hann hafi neitað að breyta vottorði vegna ópíóða.

Þetta kemur fram í viðtali við Árna Tómas á vef Heimildarinnar. Þar segir jafnframt að málið hafi verið tilkynnt til lögreglu. 

Árni Tómas Ragnarsson gigtarlæknir.
Árni Tómas Ragnarsson gigtarlæknir. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir í viðtalinu að hann hafi aldrei orðið fyrir ofbeldi í sínu starfi fyrr en nú þegar mennirnir ógnuðu honum og heimtuðu nýtt vottorð, sem hann neitaði þeim um. Annar mannanna er sonur konu sem hafði verið skjólstæðingur Árna Tómasar, en hún býr nú á Spáni, og vildu mennirnir að Árni Tómas myndi falsa vottorðið sem hafði verið gefið út til móðurinnar. 

Í umfjöllun Heimildarinnar er rifjað upp þegar Embætti landlæknis svipti hann starfsleyfi að hluta, eða leyfi til að ávísa verkjalyfjum, svefnlyfjum og kvíðalyfjum. Bent er á að hann hafi undanfarin tvö eða þrjú ár ávísað morfínlyfjum til fíknisjúklinga sem nota vímuefni í æð. Tekið er fram að það hafi upphaflega verið starfsfólk skaðaminnkunarúrræðisins Frú Ragnheiðar sem bað Árna Tómas um að skrifa upp á lyf fyrir skjólstæðinga sína.

„Þetta er í fyrsta skipti sem fíklamál mín hafa endað með ofbeldi, líklega tveir handrukkarar,“ segir Árni Tómas í samtali við Heimildina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert