Sakaði þingmanninn næstum um lögbrot

Gagnrýni rigndi yfir Diljá Mist Einarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, þegar hún mætti í upphlutsvesti við nútímalegri klæðnað við síðustu þingsetningu. Þetta upplýsir hún í léttu spjalli á vettvangi Spursmála þar sem hún er gestur ásamt Mörtu Maríu Winkel Jónasdóttur, fréttastjóra á Morgunblaðinu.

„Ég fékk rosalega marga reiðipósta yfir fötunum sem ég var í við síðustu þingsetningu,“ sagði Diljá Mist.

Diljá Mist birti þessa skemmtilegu mynd af sér frá þingsetningardegi …
Diljá Mist birti þessa skemmtilegu mynd af sér frá þingsetningardegi í september í fyrra. Klæðaburðurinn vakti verðskuldaða athygli og sitt sýndist hverjum. Ljósmynd/Facebook

Greip þá Marta María inn í og spurði ákaft: „Í hverju varstu?“

Ég var í upphlutsvesti sem amma mín hafði átt og henni hafði áskotnast,“ svaraði Diljá.

Hófst þá darraðardansinn.

„Já, en það er brot á lögum. Þú mátt ekki gera þetta. Það gilda ákveðnar reglur, kannski ekki lög, kannski ekki brotið lög, en það gilda ákveðnar reglur um þjóðbúninga og þjóðbúningavesti skal vera með þjóðbúningaskyrtu og það þarf að vera næla og pilsið þarf að vera með ákveðnum hætti, því svo voru til allskonar útfærslur af þjóðbúningum en það þykir t.d. mjög ósiðlegt að mæta bara í brjóstahaldara og þjóðbúningavesti og bara einhverjum leðurbuxum,“ segir Marta María.

Leðurbuxur eða ekki?

Grípur þá Diljá inn í og segir: „Það var ekki þingdressið mitt!“

Slær þá Marta María á létta strengi og segir: Víst varstu í leðurbuxum, nei!“

Urðu af þessu hin hressilegustu skoðanaskipti og sjaldan eða aldrei hefur íslenski þjóðbúningurinn orðið annað eins bitbein milli manna í opinberri umræðu.

Viðtalið við Mörtu Maríu og Diljá Mist má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert