Stefnuleysi í málaflokki ópíóíða

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir stjórnmálamenn hafa brugðist þeim sem …
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir stjórnmálamenn hafa brugðist þeim sem glíma við ópíóíðafíkn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn segja skýrslu ríkisendurskoðanda um stefnu í málum er varða ópíóíðafíkn eða fíknivanda almennt sýna stefnuleysi og skort á forystu. Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir stjórnmálamenn og samfélagið sem heild hafa brugðist fólkinu sem glímir við ópíóíðafíkn. 

Þórunn og Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar gerðu skýrslu ríkisendurskoðanda um stefnu í málum er varða ópíóíðafíkn eða fíknivanda almennt að umtalsefni í ræðum sínum. 

Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óljós forysta í málaflokknum

Þórunn sagði að það ætti að vera fólki augljóst að stjórnmálamenn og samfélagið sem heild hefði brugðist þeim sem glíma við ópíóíðafíkn.

„Úttektin varpar skýru ljósi á fullkominn skort á pólitískri forystu, á stefnuleysi og þokukennda sýn á málaflokkinn. Eftir lestur hennar ætti öllum að vera ljóst hvernig við höfum brugðist sem stjórnmálamenn og samfélag því fólki sem glímir við erfiðan ópíóíðavanda. Enginn viðmælandi ríkisendurskoðunar gat bent á hvar forysta í málaflokknum lægi. Það er engin stefna í gildi um áfengis- og vímuvarnir. Hún rann út árið 2020,“ sagði Þórunn. 

Þá benti hún á að innlögnum sökum ópíóíðafíknar hefði fjölgað um 60% frá árinu 2017. 

Skortur á ráðamönnum sem skilja vandann

Sigmar sagði málaflokkinn dingla einhvern veginn áfram á sjálfstýringu og að heilbrigðisyfirvöld þyrftu að reiða sig á grasrótarsamtök og félagasamtök. 

Það hefur verið vitað í fjöldamörg ár að meðferðarpláss á Íslandi eru fá og það skortir endurhæfingu. Það skortir bráðaþjónustu. Það er skortur á fjármagni. Alvarlegastur er samt áratugaskortur á ráðamönnum sem raunverulega skilja vandann. Hringir það í alvöru engum bjöllum að nokkur þúsund manns með banvænan sjúkdóm biðja um aðstoð á hverju einasta ári? Þetta eru fleiri en greinast með krabbamein á hverju ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert