Rakaskemmdir í ókláruðum leikskóla

Drekadalur verður sex deilda leikskóli en samið var við verktakann …
Drekadalur verður sex deilda leikskóli en samið var við verktakann í maí á síðasta ári. Tölvuteiknuð mynd/Af vef Reykjanesbæjar

Tafir verða á afhendingu leikskóla í Dalshverfi III í Reykjanesbæ, sem ber vinnuheitið Drekadalur, en rakaskemmdir eru í byggingunni.

Þetta segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, í skriflegu svari til mbl.is.

„Já, það hefur orðið vart við leka í byggingunni og þar með rakaskemmdir. Hér er bæði um að ræða leka inn í bygginguna og raka sem komst í einingarnar við uppsetningu,“ segir Guðlaugur aðspurður.

Áætluð afhending í ágúst

Félagið Hrafnshóll átti upphaflega að skila verkinu af sér í næsta mánuði en ljóst er að það mun seinka og er miðað við afhendingu í ágúst.

„Við höfum lagt á það áherslu að gæði ganga fyrir tíma og munum engan afslátt gefa á gæðum verkefnisins þrátt fyrir að við séum í tímapressu,“ segir Guðlaugur.

Hann segir að útboð vegna lóðafrágangs sé klárt í útboð og verður það auglýst fljótlega.

„Við erum enn með stefnuna á að þessi leikskóli verði klár í ágúst en ýmislegt sem getur komið í veg fyrir það, en við höldum enn í þá von,“ segir Guðlaugur.

Enn á því að best sé að verktakinn standi við sitt tilboð

Reykjanesbær hefur lagt fram aðgerðaráætlun sem verktaki er að skoða með sínum ráðgjöfum. Guðlaugur segir að bærinn eigi von á skýrslu frá ráðgjafa verktaka fyrir eða eftir páska og þá verða næstu skref ákveðin.

„Við erum enn á því að besta leiðin fyrir alla aðila er að verktaki standi við sitt tilboð, þ.e. skili til okkar húsnæði leikskóla tilbúið til notkunar og við getum hafið starfsemi þarna í ágúst á þessu ári,“ segir Guðlaugur.

Drekadalur verður sex deilda leikskóli en samið var við verktakann í maí á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka