Sumargjöfin „blaut tuska“ í andlit almennings

Vilhjálmur kveður gjöfina ekki í anda markmiða um að gæta …
Vilhjálmur kveður gjöfina ekki í anda markmiða um að gæta hófsemi til að stemma stigu við verðbólgunni. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Árni Sæberg

„Þetta er ígildi fjögurra mánaða launahækkunar sem við vorum að semja um. Ef við setjum það í samhengi.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, um sumargjöf starfsmanna Íslandsbanka.

All­ir starfs­menn ­bankans fá 100 þúsund krón­ur í sum­ar­gjöf og nemur heildarupphæð sumargjafanna því um 70 milljónum króna. Þess má geta að ríkið á 42,5 prósent hlut í bankanum.

Kemur ekki á óvart úr þessum ranni

„Þetta sýnir bara hvernig fjármálakerfið virkar. Það kemur svo sem ekkert á óvart þegar það er úr þessum ranni.“

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur gjöfina ekki í anda þeirra markmiða um að reyna að gæta hófsemi til að stemma stigu við verðbólgu og vaxtahækkunum. 

„En þetta kannski sýnir það að það er nóg til í fjármálakerfinu, þannig að þeir ættu nú að geta stigið skrefið og skilað því til neytenda,“ segir Vilhjálmur.

Bætir hann við að það séu viðskiptavinir bankans, sem hafi þurft að búa við okurvexti, sem skili bönkunum þessum gríðarlega hagnaði.

Vel í lagt

Kveðst Vilhjálmur ekki vita til þess að fyrirtæki hafi almennt verið að gefa sumargjafir. Vissulega tíðkist að gefa jólagjafir og jafnvel páskaegg, en 100 þúsund krónur í sumargjöf sé ansi óhefðbundið.

„Þetta er frekar blaut tuska í framan í viðskiptavini fjármálakerfisins að horfa upp á svona hluti sem að almennt tíðkast ekki.“

Mætti kalla þetta hræsni?

Þetta er alla vega vel í lagt, svo ekki sé fastara að orði kveðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka