Heimsfaraldurinn var æfing í seiglu

Katrín Jakobsdóttir í Stjórnarráðinu í morgun.
Katrín Jakobsdóttir í Stjórnarráðinu í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi forsætisráðherra, segir að baráttan við heimsfaraldurinn standi upp úr þegar hún lítur yfir farinn veg sem forsætisráðherra.

„Ég sagði það nú einhvern tímann að ég hefði held ég einum þrisvar sinnum lýst faraldrinum lokið og aldrei var hann búinn þannig að þetta var mikil æfing í seiglu,” sagði Katrín eftir að hafa afhent Bjarna Benediktssyni lyklavöldin í Stjórnarráðinu.

Katrín ræddi við blaðamenn í Stjórnarráðinu.
Katrín ræddi við blaðamenn í Stjórnarráðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög stolt af því hvernig okkur gekk sem samfélagi að takast á við þetta risaverkefni, eitt hið stærsta í lýðveldissögunni. En auðvitað er margt sem eftir stendur og það blasir við líka að þegar tími gefst þarf maður að reyna að taka þetta saman með almennum hætti,” sagði hún.

„Einstök forréttindi“

Spurð hvað hún vildi segja við þjóðina við þessi tímamóti sagðist hún þakka þjóðinni fyrir.

„Það hafa verið einstök forréttindi að fá að gegna þessu embætti fyrir íslenska þjóð og ég hef oft hugsað um það á þessum árum hversu heppin við erum að eiga hvert annað að.”

Jafnframt sagðist hún ekki ætla að snúa aftur í Stjórnarráðið sem ráðherra, þeim kafla í lífi hennar væri lokið.

Katrín yfirgefur Stjórnarráðið.
Katrín yfirgefur Stjórnarráðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ofboðslega mörg verkefni

Innt eftir því hvað hún hefði sagt við Bjarna fyrir luktum dyrum í Stjórnarráðinu að lyklaskiptunum loknum sagði hún:

„Ég var aðeins að rifja upp hvað ég er búin að gleyma og að minna hann á það,” sagði hún og hló en bætti svo við að verkefnin í ráðuneytinu væru ofboðslega mörg og að þeim væri aldrei lokið.

Spurð út í samstarf hennar og Bjarna í ríkisstjórninni sagði hún að allt ríkisstjórnarsamstarfið hefði verið mjög krefjandi en að heilt yfir hefði það gengið vel því allt hefði það byggst á heiðarlegum samskiptum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka