„Hvað er eiginlega að frétta af þessum málum?“

Jóhann ræddi við lækni sem kvaðst vera í eins konar …
Jóhann ræddi við lækni sem kvaðst vera í eins konar varðhundshlutverki fyrir atvinnurekendur sem noti kröfu um veikindavottorð sem „ógnunartæki gagnvart starfsfólki“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á þriggja ára tíma­bili voru 504.670 vott­orð gef­in út hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar seg­ir að heilsu­gæslu­kerfið ein­kenn­ist af of mik­illi skriffinnsku og að of lít­ill tími gef­ist til að sinna sjúk­ling­um.

Heil­brigðisráðherra seg­ir að breyt­ing­ar á reglu­gerð um vott­orð verði kynnt­ar á næstu dög­um.

„Á sama tíma og bið eft­ir þjón­ustu leng­ist og leng­ist og á sama tíma og mönn­un­ar­vand­inn áger­ist, þá er skriffinnska og vott­orðagerð og til­vísana­gerð og hand­tök fyr­ir fram­an tölvu­skjá í handónýtu og úr­eltu sjúkra­skrár­kerfi allt sam­an að aukast með hverju ár­inu,“ sagði Jó­hann Páll Jó­hanns­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurna­tíma á Alþingi.

Hann kvaðst hafa rætt við heim­il­is­lækni á dög­un­um sem tjáði hon­um að hann væri, í trássi við eig­in vilja, í eins kon­ar varðhunds­hlut­verki fyr­ir at­vinnu­rek­end­ur sem séu að nota kröfu um veik­inda­vott­orð sem „ög­un­ar­tæki gagn­vart starfs­fólki“. Þá sé þessu sér­stak­lega beitt gegn lág­tekju­fólki og inn­flytj­end­um.

Will­um vænt­ir aðgerða á næstu dög­um

Jó­hann spurði svo Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra hvað hann væri að gera til að sporna gegn þess­ari þróun.

„Ætlar ráðherra ekk­ert að gera með til­lög­ur frá starfs­hópi um vott­orðagerð sem bár­ust hérna fyr­ir einu og hálfu ári? Hvað er eig­in­lega að frétta af þess­um mál­um? Til hvaða aðgerða ætl­ar hæst­virt­ur heil­brigðisráðherra að grípa til til þess að heil­brigðis­starfs­fólk geti varið minni tíma í skriffinnsku og meiri tíma í að sinna sjúk­ling­um?“

Will­um þakkaði Jó­hanni fyr­ir að vekja at­hygli á mál­inu og sagði að það væri verið að vinna með til­lög­ur úr fyrr­nefndri skýrslu. Sagði hann góð sam­töl vera í gangi við Fé­lag ís­lenskra heim­il­is­lækna og heilsu­gæsl­una í þeim til­gangi að auka skil­virkni og þjón­ustu við viðskipta­vini. Þá kvaðst hann vænta aðgerða á næstu dög­um.

„Meðal þess sem verið hef­ur mjög há­vær krafa um eru til­vís­an­ir barna og við erum með þetta í skoðun og eins til­lög­ur sem eru núna til um­fjöll­un­ar hjá fé­lagi heim­il­is­lækna, hjá heilsu­gæsl­unni, hjá þeim aðilum sem eru að sinna þjón­ust­unni. Ég vænti þess að bara á allra næstu dög­um get­um við raun­gert þær aðgerðir sem standa til.

Þær eru ein­mitt til þess falln­ar og hugsaðar í þeim til­gangi að auka skil­virkni í kerf­inu, að það geti bet­ur flætt á milli þjón­ustu­stiga og dregið þannig úr álag­inu að, ein­mitt eins og hv. þingmaður sagði, við get­um nýtt til að mynda þjón­ust­una og sér­fræðiþekk­ing­una meir og bet­ur með viðskipta­vin­in­um, með sjúk­lingn­um,“ sagði Will­um á Alþingi í dag.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Eru þetta beiðnir sem er verið að mis­nota í massa­vís?“

Jó­hann steig aft­ur upp í pontu Alþing­is og kvaðst engu nær um það hvað ná­kvæm­lega verði gert til að draga úr sóun og skriffinnsku í heilsu­gæsluþjón­ustu. Hann sagði að reglu­gerð um lækn­is­vott­orð hafi ekki verið upp­fært frá ár­inu 1991 á sama tíma og lagaum­hverfið hafi að öðru leyti breyst.

Hann kallaði eft­ir því að kerfið yrði að ein­hverju leyti sam­ræmt því sem fyr­ir­finn­ist í Svíþjóð, þar sem meðal ann­ars vinnu­veit­end­ur og skól­ar geta ekki farið fram á lækn­is­vott­orð nema veik­indi standi yfir í meira en viku.

„Hvers vegna eru heilsu­gæslu­lækn­ar til dæm­is gerðir að hliðvörðum við út­hlut­un á full­orðins­blei­um? Hver er ávinn­ing­ur­inn? Eru þetta beiðnir sem er verið að mis­nota í massa­vís? Hver er ávinn­ing­ur­inn af þessu? Verður þessu breytt á næstu dög­um, hæst­virt­ur ráðherra? Og hvenær verður úr­eltu og handónýtu sjúkra­skrár­kerfi skipt út fyr­ir nýtt kerfi sem upp­fyll­ir kröf­ur 21. ald­ar?“ spurði Jó­hann.

Sjúkra­skrár­kerfið í fýsi­leika­könn­un

Will­um sagði að sjúkra­skrár­kerfið sé í skoðun og í fýsi­leika­könn­un þar sem er til skoðunar hvort að skipta eigi kerf­inu al­farið út eða halda áfram með það. Þá kvaðst hann vænta þess að á næstu dög­um yrðu kynnt­ar breyt­ing­ar á reglu­gerð um vott­orð í þeim til­gangi að létta álagið.

„Í ráðuneyt­inu og til um­fjöll­un­ar núna hjá heilsu­gæsl­unni og lækn­un­um og starfs­fólk­inu er end­ur­skoðun á kröfu um til­vís­un fyr­ir börn á aldr­in­um 2–18 ára í þeim til­gangi að létta álagið. Það er mjög mikið um­fang og við yrðum líka að leita leiða með barna­lækn­um um hvernig það geti létt álagið.

Við erum líka að meta, eins og hátt­virt­ur þingmaður kom inn á, til­tek­in vott­orð, ein­föld­un á þeim, og að breyta þess­ari reglu­gerð sem hátt­virt­ur þingmaður vísaði hér til. Þannig að við yrðum að skoða öll þessi vott­orð. Ég reikna með því að á næstu dög­um ger­um við breyt­ing­ar á reglu­gerðinni í þeim til­gangi að létta álagið,“ sagði Will­um.

Þá nefndi Will­um að lok­um að varðandi sjúkraþjálf­ara þá séu fyrstu sex skipt­in í boði án til­vís­ana frá heim­il­is­lækni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert