Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi hvort hann ætlaði ekki að sjá til þess að kaupum Landsbankans á TM yrði rift án tafar.
Þetta ætti hann að gera þrátt fyrir yfirlýsingu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fráfarandi fjármálaráðherra, um annað. Einnig ætti hann að fela Fjármálaeftirlitinu að gera úttekt á Kviku banka, sem er að selja TM.
Ásthildur Lóa benti á að Þórdís Kolbrún hefði viljað bíða eftir skýrslu Bankasýslunnar, þangað til hún myndi tjá sig frekar um málið, „skýrslu sem í fyrsta lagi átti ekki að vera til og hefur í öðru lagi sannað að hún sé ekki fær um að sýsla með eitt né neitt”.
Bjarni kvaðst pólitískt sammála því að óréttlætanlegt væri fyrir ríkið að auka umsvif sín á fjármálamarkaði. Slíkt leiddi þó ekki að sjálfu sér til þess að hægt væri að rifta kaupunum án þess að gaumgæfa t.d. öll lagaleg atriði.
„Eða hvað myndu menn segja um fjármálaráðherra sem rifti slíkum kaupum ef í ljós kæmi að með því væri ríkinu bökuð margra milljarða skaðabótakrafa?” sagði Bjarni.
„Hvað myndi hæstvirtur þingmaður segja í því tilviki? Myndi hæstvirtur þingmaður styðja ráðherrann óháð mögulegri bótakröfu á ríkissjóð í því að rifta bara kaupunum vegna pólitískra sjónarmiða óháð afleiðingum fyrir íslenska skattgreiðendur?” bætti forsætisráðherrann við.