Leggja fram vantrauststillögu í næstu viku

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hyggst leggja fram þriðju vantrauststillöguna …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hyggst leggja fram þriðju vantrauststillöguna sína á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

Flokkur fólksins hyggst leggja fram vantrausttillögu á hendur ríkisstjórnarinnar í næstu viku.

„Það sem við stefnum á er að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina sjálfa,“ segir Inga Sæland, formaður flokksins, í samtali við mbl.is. 

Hún hefur rætt við alla stjórnarandstöðuflokkana um fyrirhugaða vantrauststillögu og segir að það muni skýrast eftir þingflokksfundi á mánudag hverjir munu styðja tillöguna, en þingflokkar funda yfirleitt kl. 13 á mánudögum.

Þrír ráðherrar sérstaklega óþekkir

„Enda eru þrír ráðherrar í þessari ríkisstjórn alveg einstaklega lagnir við það að fara ekki á eftir lögum í landinu,“ bætir Inga við.

Inga á þar við um Bjarna Benediktsson, nýkrýndan forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, sem fór nýlega matvælaráðuneytinu yfir í innviðaráðuneytið, og Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Inga treystir ekki Bjarna vegna vanhæfis hans í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, treystir ekki Svandísi vegna ólögmæts hvalveiðibanns í fyrra. Og treystir ekki Guðmundi Inga vegna brostinna loforða um stofnun embættis hagsmuna­full­trúa eldri borg­ara.

Stjórnarandstaðan treystir ekki ríkisstjórninni

„Enginn stjórnarandstöðuþingmaður sem ég hef heyrt í treystir þessari ríkisstjórn,“ segir Inga en hún kveðst aftur á móti ekki viss hvort flokkurinn geti einnig lagt fram vantrausttillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra, áður matvælaráðherra, „þar sem hún flúði á milli ráðuneyta.“

Það yrði þriðja skiptið á þessu ári sem vantrauststillaga er lögð fram á hendur Svandísi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka