Bilanir í slökkvibúnaði í Fellsmúlabruna

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út að Fellsmúla 15. febrúar …
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út að Fellsmúla 15. febrúar eftir að eldur kom upp á dekkjarverkstæði. Fjögur tilvik komu upp við slökkvistarfið þar sem búnaður bilaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bilun eða tæknilegt vandamál kom upp í fjórum tilfellum í búnaði slökkviliðsbifreiða þegar slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu barðist við eldsvoðann í Fellsmúla um miðjan febrúar.

Slökkviliðsstjóri segir búið að finna skýringar á þessum bilunum og laga þær, en að um mjög óþægilega stöðu hafi verið að ræða. Hann segir þessar bilanir þó ekki hafa komið að sök við slökkvistarfið þar sem aðrir bílar hafi verið til staðar til vara.

Bilanirnar áttu sér stað í dælubílum sem slökkviliðið fékk á árunum 2018 og 2019 og eru þeir því 5 til 6 ára gamlir. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir slíkt ekki mikinn aldur fyrir slíka bíla og að aldurinn hafi ekki verið orsök í þessum tilfellum. Til samanburðar fékk slökkviliðið á föstudaginn afhenda nýja körfubíla, en þeir leysa af hólmi allt að aldarfjórðungsgamla körfubíla.

Í tvígang kom upp bilun í froðubúnaði, en Jón Viðar …
Í tvígang kom upp bilun í froðubúnaði, en Jón Viðar segir að tekist hafi að laga það á staðnum.

Stýring á Cobra-kerfi og froðubúnaður

Annars vegar var um að ræða bilun í stýringu á einu slökkvikerfi dælubílanna sem kallast Cobra. Jón Viðar lýsir því þannig að það hafi verið tæknilegt vandamál með háþrýstibyssur sem meðal annars geta borað sig í gegnum veggi með allt að 300 bara þrýstingi. Kom þessi bilun fram á tveimur bifreiðum.

Hins vegar var um að ræða tæknilega örðugleika með froðukerfi bifreiðanna, en hér varð bilunin einnig á tveimur bifreiðum. Jón Viðar segir að þetta hafi þó verið minni háttar örðugleikar sem hafi tekist að leysa á staðnum.

Hafði ekki áhrif, en alltaf óþægileg tilfinning

„Ekkert af þessu hafði áhrif á starfið sjálft, en það er óþægilegt þegar það koma upp svona hnökrar í starfi eins og slökkvistarfi þar sem mikið liggur við og menn eru með mjög sterkan fókus á verkefnið. Þetta skapar alltaf óþægilega tilfinningu og maður fer að velta fyrir sér hvort það sé eitthvað annað að og hvort þetta verði langvarandi bilanir sem muni þurfa að glíma við, en það virðist ekki vera,“ segir Jón Viðar.

Beint í kjölfar brunans var farið í að skoða þessar bilanir og laga þær. Segir Jón Viðar að meðal annars hafi verið haft samband við framleiðanda kerfanna og að tekist hafi að laga þau. Þegar viðgerð var lokið segir Jón Viðar að farið hafi verið í tilraunir á kerfunum, hver bíll á sinni heimastöð og þar hafi bílunum verið „ögrað“ smá til að sjá hvort þeir höndluðu ekki vel krefjandi aðstæður.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Komin fyrir horn

„Við teljum okkur komin fyrir horn í þessu. Slökkvistarf og átaksvinna, þetta er samt erfitt fyrir mannskap og búnað og maður veit aldrei hvað gerist í næsta útkalli og hvort svona komi aftur upp. En þess vegna erum við alltaf með varabíla hjá okkur sem hægt er að grípa í sem taka þá við,“ segir Jón Viðar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka