Bilanir í slökkvibúnaði í Fellsmúlabruna

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út að Fellsmúla 15. febrúar …
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út að Fellsmúla 15. febrúar eftir að eldur kom upp á dekkjarverkstæði. Fjögur tilvik komu upp við slökkvistarfið þar sem búnaður bilaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bil­un eða tækni­legt vanda­mál kom upp í fjór­um til­fell­um í búnaði slökkviliðsbif­reiða þegar slökkviliðið á höfuðborg­ar­svæðinu barðist við elds­voðann í Fells­múla um miðjan fe­brú­ar.

Slökkviliðsstjóri seg­ir búið að finna skýr­ing­ar á þess­um bil­un­um og laga þær, en að um mjög óþægi­lega stöðu hafi verið að ræða. Hann seg­ir þess­ar bil­an­ir þó ekki hafa komið að sök við slökkvi­starfið þar sem aðrir bíl­ar hafi verið til staðar til vara.

Bil­an­irn­ar áttu sér stað í dælu­bíl­um sem slökkviliðið fékk á ár­un­um 2018 og 2019 og eru þeir því 5 til 6 ára gaml­ir. Jón Viðar Matth­ías­son, slökkviliðsstjóri á höfuðborg­ar­svæðinu, seg­ir slíkt ekki mik­inn ald­ur fyr­ir slíka bíla og að ald­ur­inn hafi ekki verið or­sök í þess­um til­fell­um. Til sam­an­b­urðar fékk slökkviliðið á föstu­dag­inn af­henda nýja körfu­bíla, en þeir leysa af hólmi allt að ald­ar­fjórðungs­gamla körfu­bíla.

Í tvígang kom upp bilun í froðubúnaði, en Jón Viðar …
Í tvígang kom upp bil­un í froðubúnaði, en Jón Viðar seg­ir að tek­ist hafi að laga það á staðnum.

Stýr­ing á Cobra-kerfi og froðubúnaður

Ann­ars veg­ar var um að ræða bil­un í stýr­ingu á einu slökkvi­kerfi dælu­bíl­anna sem kall­ast Cobra. Jón Viðar lýs­ir því þannig að það hafi verið tækni­legt vanda­mál með háþrýsti­byss­ur sem meðal ann­ars geta borað sig í gegn­um veggi með allt að 300 bara þrýst­ingi. Kom þessi bil­un fram á tveim­ur bif­reiðum.

Hins veg­ar var um að ræða tækni­lega örðug­leika með froðukerfi bif­reiðanna, en hér varð bil­un­in einnig á tveim­ur bif­reiðum. Jón Viðar seg­ir að þetta hafi þó verið minni hátt­ar örðug­leik­ar sem hafi tek­ist að leysa á staðnum.

Hafði ekki áhrif, en alltaf óþægi­leg til­finn­ing

„Ekk­ert af þessu hafði áhrif á starfið sjálft, en það er óþægi­legt þegar það koma upp svona hnökr­ar í starfi eins og slökkvi­starfi þar sem mikið ligg­ur við og menn eru með mjög sterk­an fókus á verk­efnið. Þetta skap­ar alltaf óþægi­lega til­finn­ingu og maður fer að velta fyr­ir sér hvort það sé eitt­hvað annað að og hvort þetta verði langvar­andi bil­an­ir sem muni þurfa að glíma við, en það virðist ekki vera,“ seg­ir Jón Viðar.

Beint í kjöl­far brun­ans var farið í að skoða þess­ar bil­an­ir og laga þær. Seg­ir Jón Viðar að meðal ann­ars hafi verið haft sam­band við fram­leiðanda kerf­anna og að tek­ist hafi að laga þau. Þegar viðgerð var lokið seg­ir Jón Viðar að farið hafi verið í til­raun­ir á kerf­un­um, hver bíll á sinni heima­stöð og þar hafi bíl­un­um verið „ögrað“ smá til að sjá hvort þeir höndluðu ekki vel krefj­andi aðstæður.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matth­ías­son slökkviliðsstjóri. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Komin fyr­ir horn

„Við telj­um okk­ur kom­in fyr­ir horn í þessu. Slökkvistarf og átaks­vinna, þetta er samt erfitt fyr­ir mann­skap og búnað og maður veit aldrei hvað ger­ist í næsta út­kalli og hvort svona komi aft­ur upp. En þess vegna erum við alltaf með vara­bíla hjá okk­ur sem hægt er að grípa í sem taka þá við,“ seg­ir Jón Viðar að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert