Í framvarðarsveit nýju kynslóðarinnar

Anton og Margrét hafa verið framalega í sínum flokkum síðustu …
Anton og Margrét hafa verið framalega í sínum flokkum síðustu ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þau Margrét Blöndahl Magnúsdóttir (HFR) og Anton Sigurðsson (BFH) hafa bæði verið aðsópsmikil í ungmennaflokkum að undanförnu og í fyrra röðuðu þau inn Íslands- og bikarmeistaratitlum í hrönnum í sínum aldursflokkum.

Bæði Margrét og Anton koma upphaflega inn í sportið í gegnum fjallahjólreiðar og þar gildir helst hjá þeim að áhuginn eykst eftir því sem brattinn verður meiri. Hins vegar hafa þau einnig náð góðum árangri í öðrum greinum og eru þau t.d. bæði Íslandsmeistarar í sínum flokkum í bæði götuhjólreiðum og tímatöku. Í dag eru þau bæði hluti af afrekshópi HRÍ og stefna á að bæta sig fyrir komandi sumar. Mikið púður hefur verið sett í ungmennastarf í hjólreiðum hér á landi undanfarin ár og má með sanni segja að bæði séu þau á meðal þeirra sem nú eru í fararbroddi nýrrar bylgju ungmenna sem munu á komandi árum streyma upp í elite-flokka.

Margrét og Anton hittu blaðamann við Nauthólsvík fyrr í mánuðinum og ræddu hvað varð til þess að þau byrjuðu í hjólreiðum, hvað liggur að baki góðum árangri þeirra og hvað sé fram undan, auk þess sem þau léku listir sínar fyrir ljósmyndara.

Feðurnir höfðu mikil áhrif

„Ég lærði að hjóla örugglega fjögurra ára og svo eftir að við fluttum til Georgíu í Bandaríkjunum, þar sem pabbi hjólaði mikið, fór ég oft með,“ segir Margrét. Í framhaldinu fór hún á krakkanámskeið í fjallahjólreiðum og svo þegar þau komu aftur heim til Íslands fór hún á fjallahjólanámskeið hjá HFR. „Þá vildi ég fara að gera meira og fór að æfa á fullu og byrjaði að keppa,“ segir hún um upphafið að hjólabakteríunni. „Og nú hef ég verið á fullu að keppa í þrjú ár.“

Margrét varð fimmfaldur Íslandsmeistari í fyrra og fjórfaldur bikarmeistari.
Margrét varð fimmfaldur Íslandsmeistari í fyrra og fjórfaldur bikarmeistari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margrét er 15 ára og keppir í U17-flokki, en í fyrra varð hún Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, tímatöku, enduro, ólympískum fjallahjólreiðum og fjallabruni. Einnig varð hún bikarmeistari í götuhjólreiðum, criterium, tímatöku og ólympískum fjallahjólreiðum.

Svipaða sögu er að segja af Antoni. Hann er 17 ára og keppir í junior-flokki (U19). Í fyrra var hann í U17 og varð hann Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, tímatöku, enduro, ólympískum fjallahjólreiðum, fjallabruni og cyclocross. Einnig varð hann bikarmeistari í criterium, ólympískum fjallahjólreiðum og cyclocross.

„Ég hef verið að hjóla allt mitt líf með pabba sem er sjálfur í fjallahjólreiðum. Ég byrjaði svo að æfa þetta af kappi allan ársins hring 2019 og 2020 og byrjaði þá að keppa. Síðan þá hef ég ekki stoppað,“ segir Anton.

Fundu sig í hjólreiðum

Spurður hvort eitthvað annað en hjólreiðar hafi komið til greina segir Anton að hann hafi verið búinn að prófa fjölda íþróttagreina áður. „Ég æfði fimleika, fótbolta og frjálsar íþróttir. Svo byrjaði ég í fjallahjólreiðunum og þar fann ég mig og það var töluvert skemmtilegra en allt annað sem ég hafði prófað.“

Margrét segist einnig hafa prófað margt áður en hún fann sig í hjólreiðunum. „Ég hef prófað mjög mikið af íþróttum. Svo þegar ég prófaði hjólin þá var það bara svo gaman. Ég elska að vera uppi í fjöllum og þar kemur líka inn í að mér finnst mjög gaman að vera á snjóbretti. Bara að vera úti með vinum,“ segir hún um hvar áhuginn liggi.

Þegar kemur að ákveðnum greinum innan hjólreiðanna segist Anton hafa mestan áhuga á fjallabruni og enduro, en ólympísku fjallahjólreiðarnar komi í þriðja sæti. Í fyrra hafi hann svo byrjað í götuhjólreiðum, en hann noti það aðallega sem æfingu fyrir þol og fleira fyrir fjallabrunið og enduro.

Margrét segist á svipuðum stað með þetta. Hennar aðaláhersla sé á fjallabrun og enduro, en að götuhjólreiðar og ólympískar fjallahjólreiðar fylgi með því það séu ekkert svo margar keppnir yfir árið.

Anton lætur sig flakka ofan af myndarlegu „droppi“ án þess …
Anton lætur sig flakka ofan af myndarlegu „droppi“ án þess að hika neitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

5-6 æfingar í viku

„Það er rosa mikið af æfingum, bæði styrktaræfingar og þolæfingar og mikið yfir veturinn á trainer,“ segir Margrét spurð um hvað búi að baki þeim árangri sem hún hefur náð. Bætir hún við að hún taki slatta af morgunæfingum og svo þurfi hún auðvitað líka að vera dugleg að fara út að hjóla til að æfa tæknina.

Spurð út í eftirfylgni og slíkt og hvort hún sé strax komin í staðlaðar æfingar þar sem hún noti Training Peaks eða álíka forrit til að halda utan um æfingabókhaldið segir Margrét að ungmenni geti valið hvort þau geri það eða ekki, en hún vilji hafa það aðhald og að hjóla eftir vöttum o.s.frv.

Anton segist einnig hjóla talsvert inni á veturna til að viðhalda þoli og styrk, en strax á vorin og yfir sumarið vilji hann vera sem mest úti.

Hjá bæði HFR og BFH eru reglulegar barna- og ungmennaæfingar og segir Anton að mikil framför hafi orðið þar á undanförnum árum. „Þetta byrjaði sem tvær æfingar á viku og svo fór það upp í þrjár æfingar. Síðar bættust einnig við styrktaræfingar og nú hafa verið þrjár styrktaræfingar og þrjár til fjórar hjólaæfingar á viku,“ segir hann um síðasta árið.

„Þetta er svipað hjá HFR, við erum með unglingaæfingar tvisvar í viku og svo er fyrir alla í félaginu á sunnudögum og við það bætast styrktaræfingar,“ segir hún.

Fjallahjól
Fjallahjól Kristinn Magnússon

Aukin áhersla á fjallahjólin

Spurð um áform og markmið fyrir sumarið segja þau bæði að markmiðið sé fyrst og fremst að ná fram persónulegri bætingu. „Markmiðið er að verða betri en í fyrra. Ég held að ég muni keppa í öllum keppnum sem ég get og svo bara verða betri en ég var í fyrra,“ segir Margrét.

Anton ætlar hins vegar að vera með áherslubreytingu í sínum æfingum og keppnum og segist ætla að fókusera langmest á fjallahjólahlutann í ár, en ekki eins mikið á götuhjólin. Hann segir ekki loku fyrir það skotið að hann muni taka þátt í einhverjum götuhjólakeppnum, en það verði þó ekki af sama kappi og í fyrra. „Mun nota þær frekar sem góðar æfingar fyrir fjallahjólin. Fjallabrun og enduro verða í fyrsta sæti og svo XC [ólympískar fjallahjólreiðar] í þriðja sæti.“

Margrét nefnir einnig að áformuð sé utanlandsferð með HFR þar sem horft sé til þess að ná fimm hjóladögum á fjallahjólasvæði með löngum leiðum og lyftum. Bæði eru þau sammála um að slíkar langar brautir séu það sem helst vanti á Íslandi og nefnir Anton að íslenskar aðstæður séu hreinlega ekki á pari við það sem gerist erlendis. „Maður nær ekki að komast alveg á sama stig hér og úti.“ Vísar hann þá sérstaklega til þess að eftir að hafa æft mikið í styttri leiðum hér á landi þýði það að þegar farið er út að keppa í alvörukeppnum með löngum brautum sé úthaldið ekki nægjanlega gott og þreyta t.d. í höndum fari fljótt að segja til sín. „Maður þarf að fara sem mest til útlanda til að ná í þessa æfingu,“ segir Anton.

Bæði Anton og Margrét eru hluti af afreks- og/eða úrvalshópi HRÍ sem fjallað er ítarlega um hér á öðrum stað í blaðinu. Anton nefnir að áformað sé að senda út hóp á Norðurlandamótið í sumar og að hann stefni þangað.

Margrét tekur undir með Antoni að mikilvægt sé að ná í keppnisreynsluna úti og auk æfingaferðarinnar sé stefnan sett á að komast eitthvað út að keppa líka með HFR. Bæði segjast þau harðákveðin í að halda áfram í sportinu á komandi árum og að byggja sig upp sem betra hjólreiðafólk með tilheyrandi æfingum og keppnisþátttöku, bæði hér á landi og erlendis.

Viðtalið birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem finna má í heild hér:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka