Þetta eru hjólaframkvæmdirnar sem unnið er að

Steypuvinna stóð yfir við undirstöður fyrir brú við Grænugróf í …
Steypuvinna stóð yfir við undirstöður fyrir brú við Grænugróf í vikunni. Stígur frá Grænugróf að Dimmu verður kláraður í ár, en brúarvinnan mun standa yfir 2025. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við þau áform sem eru uppi verður þetta ár og það næsta með stærstu framkvæmdaárum á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að hjólastígaframkvæmdum og stórir áfangar munu nást.

Meðal stórra verkefna sem nú sér fyrir endann á er tenging eftir svokölluðum norður-suður-ás á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og svo með tengingu upp í efri byggðir þegar klárað verður verkefni við samfelldan hjólastíg upp allan Elliðaárdal.

Undanfarin ár hefur verið farið yfir stöðuna á hjólastígaframkvæmdum í Hjólablaðinu og þetta ár er þar engin undantekning. Óskað var eftir svörum frá öllum sveitarfélögum og Vegagerðinni um þær framkvæmdir sem hefðu klárast frá síðasta ári og þau verkefni sem ætti að ráðast í á þessu ári, auk þess sem tekin er staðan á öðrum verkefnum sem hafa verið kynnt, en ekki verður ráðist í alveg strax.

Kortið sýnir framkvæmdir við hjólainnviði sem eru í gangi, hafa …
Kortið sýnir framkvæmdir við hjólainnviði sem eru í gangi, hafa verið kynntar, eru á teikniborðinu eða það sem þegar er lokið við. Kort/mbl.is

Hægt er að skoða korið í fullri upplausn hér

Norður-suður-ásinn

Ef við byrjum að horfa til þeirra verkefna sem eru á könnu Vegagerðarinnar, þá eru það hjólastígaverkefni í gegnum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með aðkomu ríkisins. Er þar um að ræða stærstu verkefnin og má í raun segja að þar sé verið að tala um nokkurs konar stofnæðar hjólanetsins, svipað og Vegagerðin heldur utan um stofnbrautir fyrir bílaumferð.

Í Hafnarfirði er búið að klára tengingu meðfram Strandgötu frá Reykjanesbraut niður að sjó. Er þar verið að tengja Vellina við miðbæinn.

Norður-suður-samgönguásinn á höfuðborgarsvæðinu liggur svo frá Engidal, við gatnamótin út á Álftanes, í gegnum Garðabæ, yfir Arnarnesið og yfir Kársnesið og áfram til Reykjavíkur. Í Hafnarfirði er horft til þess tenging komi bæði meðfram Reykjavíkurvegi og meðfram Fjarðarhrauni/Bæjarhrauni að Engidal. Eiga stígarnir að ná meðfram Reykjavíkurvegi niður að Hraunbrún og meðfram Bæjarhrauni að Kaplakrika. Ekki er gert ráð fyrir að farið verði í framkvæmdir við Bæjarhraun strax, né á syðri hlutanum við Reykjavíkurveg.

Hins vegar er mögulegt að farið verði í útboð og framkvæmdir frá gatnamótum Hjallabrautar og Reykjavíkurvegar að Breiðási í Garðabæ, en þá er farið um fyrrnefndan Engidal. Katrín Halldórsdóttir, sérfræðingur fyrir hjólastígaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hjá Vegagerðinni, segir að þessi kafli gæti farið af stað í haust og eigi að klárast á næsta ári.

Arnarnesgöngin eru meðal þeirra verkefna sem kláruðust á síðasta ári
Arnarnesgöngin eru meðal þeirra verkefna sem kláruðust á síðasta ári mbl.is/Þorsteinn

Næstu áfangar í sumar

Það á einnig við um fleiri hluta norður-suður-ássins, en gert er ráð fyrir að stígur frá Vífilsstaðavegi að Arnarneshæð, vestan við Hafnarfjarðarveg, fari einnig í útboð í haust og klárist á næsta ári. Þar taka við nýkláruð undirgöng undir Arnarnesveg og örlítinn spotta norður fyrir. Katrín segir að einnig verði farið í útboð í sumar á næsta kafla, en það er frá Arnarneshæð og niður að Kópavogstúni, meðal annars yfir Kópavogslækinn þar sem hann rennur til sjávar. Vonast hún til að framkvæmdir hefjist í haust og klárist á næsta ári.

Þá segist hún einnig vonast til að hægt verði að bjóða út breikkun og lagningu hjólastígs frá Kópavogstúni upp að undirgöngunum á Kópavogshálsi í haust. Þar standa einnig væntingar til að framkvæmdir hefjist í haust og klárist á næsta ári. Síðasti hlutinn af þessum kafla er svo Ásbrautin, norðanmegin á Kópavogshálsi, en samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er ljóst að ekki verður komist í að klára deiliskipulagsvinnu fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári varðandi þann kafla.

Þegar eru stígar sem taka við þegar komið er niður af Kópavogshálsi í norðri og liggja inn í Reykjavík, bæði meðfram ströndinni og inn í Fossvogsdal, en einnig er nú unnið að lagningu nýs stígs upp Suðurhlíðar meðfram Kringlumýrarbraut. Á sú framkvæmd að klárast í júní að sögn Katrínar.

Framkvæmdir við nýjan stíg upp meðfram Suðurhlíðum stendur nú yfir, …
Framkvæmdir við nýjan stíg upp meðfram Suðurhlíðum stendur nú yfir, en þeim á að ljúka síðar í sumar. mbl.is/Þorsteinn

Í þessa upptalningu vantar svo Fossvogsbrúna, en vinna við landfyllingu vegna hennar á að hefjast á þessu ári. Enn eru því líklega einhver ár í að það sjái fyrir endann á þeirri framkvæmd, en það myndi líklega kalla á að klárað yrði að leggja sérstakan hjólastíg frá Fossvogsbrúnni Kópavogsmegin og suður fyrir Kársnesið.

Af þessu má ljóst vera að svokallaður norður-suður-ás gæti að stærstum hluta verið klár í lok næsta árs eða á fyrri hluta 2026. Þá verður hægt að hjóla á sérstökum hjólastíg frá Kaplakrika eða Hraunbrún í Hafnarfirði, í gegnum Garðabæ og Kópavog og inn að Fossvogi. Þar verður hægt að velja milli þess að fara upp Fossvogsdal með öðrum tengingum sem eru við Elliðaárdal, vestur sjávarsíðuna vestur í bæ eða inn að Hlíðarenda, eða upp Suðurhlíðar og meðfram Kringlumýrarbraut alveg niður að Laugavegi.

Rétt er að taka fram að stuttir kaflar á þessari leið verða enn ekki með aðgreindum hjólastígum. Það á meðal annars við kafla frá Breiðási að Vífilsstaðavegi í Garðabæ, en það helst í hendur við áform um framkvæmdir við bílastokk á þessum stað tengt borgarlínuframkvæmdum. Einnig er kaflinn fram hjá söfunum í Kópavogi á Kópavogshálsi áfram hugsaður fyrir blandaða umferð.

Lokahnykkur í Elliðaárdal

Hitt stóra verkefnið sem Vegagerðin hefur komið að fjármögnun á er Elliðaárdalurinn, en þar er það þó Reykjavíkurborg sem sér um framkvæmdir. Þegar var kominn hjólastígur frá Sprengisandi og upp að brú við Fylkisvöllinn. Í fyrra kláraðist svo að lengja þann stíg upp meðfram ánni að svokallaðri Grænugróf og áfram að Fella- og Hólakirkju. Við Grænugróf stendur nú yfir vinna við að smíða brú yfir Elliðaárnar. Sú brúarsmíði á að klárast í haust, en bannað er að vinna við hana yfir sumartímann vegna laxveiði.

Við Dimmu standa nú yfir framkvæmdir við nýja brú og …
Við Dimmu standa nú yfir framkvæmdir við nýja brú og nýjan stíg sem liggur niður að Grænugróf. Sjá má glitta í þær framkvæmdir nokkur hundruð metrum neðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Austan megin við Elliðaárnar og ofan við Grænugrófarbrú verður svo lagður hjólastígur sem tengist inn á núverandi stíg sem liggur þeim megin við ána og upp að Dimmu, en það kallast staðurinn þar sem svokölluð hitaveitubrú er núna rétt neðan við Breiðholtsbrautina. Vinna við stöpla þeirrar brúar er þegar hafin, líkt og við Grænugróf og hefst vinna þar aftur í haust og klára á hana fyrir næsta sumar. Með lagningu Arnarnesvegar yfir Vatnsendahæð, með samsíða hjólastíg, er svo gert ráð fyrir tengingu nálægt Dimmubrúnni.

Katrín segir að meðal verkefna Vegagerðarinnar sem eru aðeins lengra inn í framtíðina séu meðal annars hjólastígaverkefni á Völlunum og Lækjargötu í Hafnarfirði og við Hringbraut í Reykjavík. Horft sé til hjólastígs bæði vestan og austan við Suðurgötu, en hún tekur fram að þetta sé verkefni sem sé komið skammt af stað.

Nánari yfirsýn yfir framkvæmdirnar við Dimmu. Þar eru nú komnar …
Nánari yfirsýn yfir framkvæmdirnar við Dimmu. Þar eru nú komnar undirstöður, en stöðva þarf framkvæmdir í maí og fram í september vegna laxveiði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tengingar austar í borginni

Snúum okkur nú að hjólastígaverkefnum sem eru á vegum sveitarfélaga og hefjum aftur yfirferðina í Hafnarfirði og vinnum okkur norður. Frá í fyrra er lokið við stíg upp í Kaldársel. Þá eru komin fram ný áform um að leggja hjólastíg frá Kaldárselsvegi að Völlunum um Ásvallabraut, en það er sunnan megin við Ásfjall.

Í Garðabæ á að klára á þessu ári stíg frá Urriðaholti að Vífilsstöðum. Í Vetrarmýri verður svo unnið að stígaframkvæmdum samhliða uppbyggingu hverfis þar, en frá Vetrarmýrinni er svo langt kominn hjólastígur sem liggur að Arnarnesvegi, þar sem við tekur ágætis stígakerfi upp hæðina og svo niður og fram hjá Lindum og inn að Mjódd. Enn á þó eftir að koma í ljós hvort horft verði til stígagerðar í gegnum gamla hesthúsahverfið, þegar það að lokum verður byggt upp, en það myndi draga nokkuð úr hækkunarþörf upp Lindarveginn, þar sem framkvæmdum við hjólastíg lauk einmitt nýverið.

Þessi leið frá Urriðaholti og að Mjóddinni er í raun það sem kalla má austari valmöguleiki norður-suður-ássins.

Garðabær hefur einnig ákveðið að ráðast í ómalbikaðan útivistarstíg sem mun liggja frá skátaheimili Vífils við Grunnuvatnaskarð yfir að bílastæðinu við Búrfellsgjá. Fyrir áhugafólk um malarhjólreiðar í Heiðmörk býr þessi nýja leið til fullt af skemmtilegum nýjum möguleikum varðandi að setja upp nýja hringi til að fara og þá sérstaklega til að komast af Heiðmerkurvegi yfir á þá vegi og stíga sem eru upp af Kópavogs- og Garðabæjarlandi.

Stígur eftir Skógarhlíð

Eðli málsins samkvæmt eru flestar framkvæmdir og stígaáform í gangi í Reykjavík. Til viðbótar við þau verkefni sem nefnd voru áður á vegum Vegagerðarinnar kemur stofnunin líka að fjármögnun á hjólastígagerð í Skógarhlíð. Kristinn Jón Eysteinsson, skipulagsfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir að þar verði farið af stað í sumar, en þó sé enn aðeins óljóst með úrfærslu á austasta hlutanum, rétt við nýju undirgöngin, þar sem samtal er í gangi við nærliggjandi lóðareigendur. Mun stígurinn liggja niður alla Skógarhlíð og verður þá komin tenging alveg frá Miklubraut/Snorrabraut samsíða öllum Bústaðaveginum, en undanfarin ár hefur verið unnið að hjólastíg þar.

Kristinn segir að komið sé til skoðunar að leggja hjólastíg um Lönguhlíð, frá Skógarhlíð og niður að Miklubraut. Það verkefni sé þó enn bara til skoðunar og ekki komið í hönnun.

Tengingar við Sprengisand

Frá síðustu útgáfu hefur einnig verið kláruð vinna við undirgöng og stígatengingar við Sprengisand, ofan Reykjanesbrautar, en það auðveldar tengingar frá Fossvogsdal inn á stíg sem kemur úr Vogahverfi og Skeifu. Einnig er lokið við breytingar á gatnamótum við Bústaðaveg og Háaleitisbraut. Stígur á Réttarholti er einnig að mestu kláraður og segir Kristinn að aðeins eigi eftir að klára að malbika síðasta kaflann yfir Sogaveg og niður að fyrrnefndri tengingu við Sprengisand.

Þar rétt fyrir neðan lá gamli heitavatnsstokkurinn yfir Elliðaárnar og nýttu margir sér það til bæði göngu og að hjóla yfir. Sokkurinn hefur nú verið fjarlægður, en ákveðið var að setja þar stíg og brýr yfir og er verkefnið samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Segir Kristinn að líklegast verði hafist höndum við framkvæmdir þar í haust þegar laxveiðitímabilinu sé lokið.

Neðar í Elliðaárdal var nýlega fjarlægður gamli hitaveitustokkurinn. Í stað …
Neðar í Elliðaárdal var nýlega fjarlægður gamli hitaveitustokkurinn. Í stað hans mun á næstunni koma þar nýr stígur mbl.is/Þorsteinn

Árbær-Breiðholt

Framkvæmdir eru einnig hafnar við stígagerð á Hálsabraut uppi á Hálsum og mun sá stígur þvera annan stíg sem áformað er að byrja á á næsta ári, en það er stígur meðfram Krókhálsi og Draghálsi. Mun sá stígur svo verða hluti af sérstökum hjólastíg meðfram Höfðabakka frá Árbæ yfir í Breiðholt, en verkefnið gengur undir nafninu „Breiðholt express“. Kallar það meðal annars á nýja brú yfir Elliðaárnar á þessum slóðum.

Kristinn segir „Breiðholt express“ vera í hönnun, en að verkefnið muni ekki fara af stað strax þar sem um risastórt verkefni sé að ræða, auk þess sem enn sé til skoðunar hvað verði gert við stífluna sjálfa sem er litlu ofar. Ekki hefur enn verið tekin nein ákvörðun um hana.

Suðurfell og Þverársel

Annað nýtt verkefni í Breiðholti er komið á teikniborðið, en það er hjólastígur meðfram Suðurfelli frá undirgöngunum við Jafnasel og inn í Elliðaárdal. Líklega verður þó ekki af þessari framkvæmd fyrr en Arnarnesvegur er klár, eftir 2026 eða 2027 og þá samhliða tvöföldun Breiðholtsbrautar, en einnig á að gera ný undirgöngu undir Breiðholtsbraut við Vetrargarð.

Í nokkurn tíma hefur verið á dagskrá stígur sem kallast Þverásel/ÍR og myndi liggja frá Skógarseli, ofan við íþróttasvæði ÍR og tengjast neðst inn á svokallaðan landamærastíg milli Seljahverfis í Reykjavík og Lindahverfis í Kópavogi. Samhliða uppbyggingu Garðheima og fleiri lóða við Álfabakka er búið að endurhanna og leggja nýjan hjólastíg nær Reykjanesbrautinni, þótt mismikil ánægja sé með útfærslu hans. Áfram er þó planað að leggja stíginn frá Þverárseli/ÍR og er hann á nýjustu áætlun borgarinnar.

Mál í biðstöðu

Í fyrri útgáfum hefur verið minnst á kafla upp Vegmúla, en Kristinn segir að sá kafli bíði skoðunar þegar komi að borgarlínu meðfram Suðurlandsbraut. Svipaða sögu er að segja um hjólastíg niður Laugaveg fyrir ofan Hlemm og tengingar þar niður að Katrínartúni. Bíður þetta nánari útfærslu borgarlínu sem og frekari breytinga á Hlemmsvæðinu.

Fleiri mál eru einnig í biðstöðu. Það á meðal annars við um Einarsnes, en þar er í dag gert ráð fyrir hjólandi umferð með bílaumferð, en þar er skorin upp samfella hjólastíga meðfram strandlengjunni sem í dag nær frá Fossvogsbotni og alla leið upp Ægisíðuna, með þessari undantekningu. Kristinn segir þetta hanga á ákvörðun um uppbyggingu í Skerjafirði. Þá er Faxaskjól/Sörlaskjól einnig í biðstöðu, en það helgast af deilum um deiliskipulag til að koma hjólastíg þar fyrir.

Hins vegar stendur yfir talsverð skipulagsvinna að sögn Kristins sem Vegagerðin, Reykjavík og Seltjarnarnes koma öll að. Er þar til skoðunar að hafa hjólastíg út Nesveginn frá Ægisíðu. Segir hann að ef allt gangi að óskum gæti komið til þess að vinna við hann hefjist á næstu 2-3 árum, en ítrekar jafnframt að þar þurfi talsvert að gerast fyrst svo af verði.

Endurhönnun á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns, sem áður hefur verið sagt frá, er enn í forhönnun, en verkið er einnig í bið vegna uppbyggingar á gamla Strætóreitnum. Stígur við Mýrargötu er kominn á teikniborðið, en hefur að öðru leyti ekki verið útfærður. Kristinn segir að horft sé til þess að hann verði byggður upp samhliða uppbyggingu Vesturbugtar.

Horft lengra fram í tímann

Á langtímaáætluninni er einnig horft til þess að leggja hjólastíg við Skúlagötu, en Kristinn segir að sá stígur kæmi þá í staðinn fyrir hjólastíg á Hverfisgötu, samhliða borgarlínuframkvæmdum.

Að lokum er rétt að nefna strandstíg um Gufunes, en frá honum var sagt í fyrra. Kristinn segir að öll hönnun þess stígs sé tilbúin, en ljóst sé að ekki verði farið í framkvæmdir við hann þar sem fjármunum hafi verið forgangsraðað í önnur stígaverkefni á þessu ári. Stígurinn er enda ekki í hjólreiðaáætlun, en gæti verið mjög falleg útivistar- og útsýnisleið og muni með uppbyggingu í Gufunesi skipta miklu máli fyrir tengingu hverfisins niður í bæ.

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem lesa má í heild hér:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka