Stjórnvöld brjóti gegn alþjóðlegum skuldbindingum

Sam­tök­in No Bor­ders mótmæltu í gær við Héraðsdóm Reykja­ness þegar …
Sam­tök­in No Bor­ders mótmæltu í gær við Héraðsdóm Reykja­ness þegar átti að leiða þrjár kon­ur sem eru þolend­ur man­sals fyr­ir dóm­ara. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

Til stendur að vísa þremur nígerískum hælisleitendum úr landi á næstu dögum. Talskona Stígamóta segir að íslensk stjórnvöld fylgi ekki alþjóðaskuldbindingum í málsmeðferð kvennanna, sem allar eru þolendur mansals.

Sam­tök­in No Bor­ders boðuðu í gær til mót­mæla við Héraðsdóm Reykja­ness en þá átti að leiða þrjár kon­ur sem eru þolend­ur man­sals fyr­ir dóm­ara.

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, mætti á mótmælin í gær til að sýna stuðning. Hún segir í samtali við mbl.is að konunum verði líklega vísað úr landi aðfaranótt mánudags, 13. maí.

„Þær eru allar með umsókn um ríkisborgararétt hjá Alþingi núna, þeim hefur hingað til verið hafnað á öllum stigum,“ segir Drífa.

Nokkur hópur fólks var við Héraðsdóm Reykjaness í gærkvöldi þegar …
Nokkur hópur fólks var við Héraðsdóm Reykjaness í gærkvöldi þegar leiða átti þrjár konur fyrir dóm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fari gegn Istanbúlsamningnum

Drífa bendir á að ekki sé tekið tillit til þess að konurnar séu mansalsþolendur, þar sem þeim hefur heldur ekki verið veitt mannúðarleyfi.

Þetta brjóti í bága við alþjóðaskuldbindingar íslenskra stjórnvalda: Istanbúlsamninginn annars vegar og sáttmála gegn mansali hinsvegar.

Istanbúl samn­ing­ur­inn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2011 og gerður fullgildur árið 2018. Hann kveður á um forvarn­ir og bar­áttu gegn of­beldi gegn kon­um og heim­il­isof­beldi.

„Þá er alveg augljóst mál að það er verið að senda þær aftur út í hættulegar aðstæður,“ segir Drífa.

Drífa Snædal, talskona Stíga­móta.
Drífa Snædal, talskona Stíga­móta. mbl.is/​Hari

„Skipulagt nauðgað í mörg ár“

Konurnar heita Esther, Blessing og Mary. Drífa rifjar upp sögu Blessing.

„Hún kemur hingað 2018 og er mansalsþolandi, þetta er mjög þekkt leið fyrir mansalsþolendur að vera seldar frá Nígeríu, til Líberíu og síðan til Ítalíu, þar sem henni var skipulagt nauðgað í mörg ár,“ segir Drífa, sem bendir á að það sé ekki staðfest að Blessing hafi verið seld í mansali á Íslandi.

„Síðan gerist það með nýju útlendingalögunum að þær eru þjónustusviptar, í ágúst síðastliðnum, og í rauninni er verið að reyna að knýja þær að fara sjálfviljugar,“ segir Drífa sem bætir við að konurnar geti ekkert farið án þess að vera óöruggar.

Með þjónustusviptingunni hafi þær verið sviptar lögfræðiaðstoð, matarpening og fleiru. Þær hafi um tíma verið upp á náð og miskunn einstaklinga komnar. Síðan var neyðarathvarf í Borgartúni stofnað.

Það segir því margt um stöðu kvennanna að þær hafi ekki haldið sjálfviljugar úr landi þrátt fyrir erfiðar aðstæður á Íslandi, bætir Drífa við.

„Þær bara hafa ekkert annað að fara til þess að þær séu öruggar,“ segir hún að síðustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert