„Dómurinn hefur ríkt fordæmisgildi“

„Þessi dómur hefur ríkt fordæmisgildi á íslenskum vinnumarkaði, bæði almennum vinnumarkaði og hinum opinbera,“ segir Jón Sigurðsson hæstaréttarlögmaður um dóm Hæstaréttar í máli flugvirkjans Eyjólfs Orra Sverrissonar sem greint var frá mbl.is fyrr í dag. 

Málið hófst fyrir um fimm árum síðan. Eyjólfur hafði ferðast tví­veg­ist til Aust­ur­landa nær árið 2018 á vegum Samgöngustofu en vinnuveitandinn hafði ekki viðurkennt sem vinnutíma þær vinnustundir sem tók hann að koma sér á milli staða utan hefðbund­ins vinnu­tíma.

Fór hann í mál við ís­lenska ríkið í framhaldinu og hafði einnig betur gegn ríkinu í Héraðsdómi og Landsrétti. Héraðsdómur leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu, en álit EFTA-dómstólsins var fyllilega í samræmi við dómana sem fallið hafa í málinu hér á landi.

Auk þess hafa EFTA-dómstóllinn og Evrópudómstóllinn dæmt í sambærilegum málum og fallist á að ferðatími sé vinnutími. Annars vegar í norsku máli og hins vegar í spænsku máli. 

„Málið er höfðað til viðurkenningar á vinnutíma. Mér skilst að vinnuveitendur á almenna markaðnum séu í einhverjum tilvikum með samninga við starfsmenn um ferðatíma sem er um fram dagvinnutíma. Ríkið hefur hins vegar þráfaldlega hafnað því að viðurkenna ferðatíma vegna ferða vegum vinnuveitanda sem vinnutíma og talið að til sé eitthvað sem heitir virkur og óvirkur vinnutími. EFTA-dómstóllinn hefur tekið þessu í dómum sínum og sagt að þær skilgreiningar standist ekki. Annað hvort er um að ræða vinnutíma eða hvíldartíma og ekkert millistig sé þar á milli.“

Afar löng ferðalög

Jón bendir á að ferðalög flugvirkja hjá Samgöngustofu til útlanda séu í sumum tilfellum mjög löng. 

„Ég held að ég geti fullyrt að flugvirkjar hjá Samgöngustofu séu sú stétt ríkisstarfsmanna sem ferðast lengst út af sínu starfi. Sem dæmi þá geta þeir verið að ferðast í 25 tíma bara til að komast á áfangastað. Daginn eftir á að taka við dagvinnutími. Ef þeir lenda til dæmis um miðja nótt þá er ekki tryggður hvíldartími ef vinna á að hefjast þegar hefðbundinn dagvinnutími byrjar. Síðan hafa falist algjörar mótsagnir í því hjá ríkinu þegar að það viðurkennir átta tíma dagvinnutíma sem vinnutíma á meðan á ferðalagi stendur en ekki tímann umfram dagvinnutíma þrátt fyrir að ferðalagið nái til lengri tíma,“ segir Jón Sigurðsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is hafði samband við Eyjólf Orra sem sagðist gleðjast yfir niðurstöðunni en afþakkaði að tjá sig frekar um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert