Formaður Neytendasamtakanna fagnar niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Vaxtamálinu svokallaða. Hann segir úrskurðinn sérstaklega mikilvægan í ljósi þeirra miklu vaxtahækkananna sem vofa yfir neytendum. Nú er aðeins beðið eftir því að héraðsdómur felli dóm.
Orðalag skilmála í lánssamningum banka með breytilegum vöxtum á Íslandi er ekki gegnsætt, samkvæmt ráðgefandi áliti sem EFTA-dómstóllinn kvað upp í dag, en EFTA eru Fríverslunarsamtök Evrópu.
„Við erum stórkostlega ánægð með þetta. EFTA-dómstóllinn tekur undir allar okkar kröfur um að svona skilmálar séu óskýrir og þar með séu þeir að ganga í berhögg við tilskipun Evrópusambandsins og íslensk lög,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is.
Samtökin skipulögðu rúmlega 1.500 manna hópmálsókn gegn Íslandsbanka og Arion banka sem tekið er fyrir Héraðsdómum Reykjavíkur og Reykjaness.
Í dómnum er tekið fram að almennir neytendur yrðu með fullnægjandi fyrirsjáanleika að geta áttað sig á þeim skilyrðum og þeirri málsmeðferð sem liggi til grundvallar vaxtabreytingum.
„Lán með breytilegum vöxtum þarf að standast það að vera gegnsætt og skiljanlegt, ekki bara málfræðilega heldur líka skiljanlegt hvaða afleiðingar það getur haft fyrir sæmilega viti borinn mann,“ segir Breki.
„Skilmálar bankanna og vaxtabreytingar eins og þær eru framkvæmdar núna standast ekki þessar kröfur.“
Dómstóllinn tók einnig fyrir mál Birgis Þórs Gylfasonar og Jórunnar S. Gröndal gegn Landsbankanum og mál Elvu Daggar Sverrisdóttur og Ólafs Viggós Sigurðssonar gegn Íslandsbanka.
Árið 2022 sendi Héraðsdómur Reykjavíkur beiðni til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit um lögmæti skilmála fasteignalána bankanna. Nú er niðurstaða komin frá EFTA, sem þýðir að sennilega megi búast við niðurstöðu hér á landi.
Niðurstaðan í málinu mun aðallega hafa þýðingu fyrir þá sem tekið hafa fasteignalán eftir að lög um fasteigna lán til neytenda gengu í gildi þann 1. apríl 2017, að sögn Neytendasamtakanna.
En úrskurðurinn hefur einnig fordæmisgildi yfir lánum lífeyrissjóða, segir Breki.
„Þetta er svo mikilvægt mál fyrir neytendur, sér í lagi þegar holskefla vaxtahækanna vofir yfir fólki. Þá eru þessar vaxtahækkanir ekki samrýmanlegar lögum.“