Álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um að þörf sé frekara aðhaldi í ríkisrekstri tekur ekki tillit til fjárlaga næsta árs, þar sem þau hafa ekki verið lögfest.
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom meðal annars fram að á næstu fimm árum gæti ríkið þurft að fara í aðhaldsaðgerðir sem nemi 1,0 til 1,5% af landsframleiðslu til að ná markmiðum sínum. Einnig ætti að verja öllum tekjum ríkisins umfram spár í opinberan sparnað.
„Skýringin á því [álit um aukið aðhald] er að þeir taka ekki tillit til þess sem við erum með – þetta hefur komið fyrir áður – að þeir þurfa að sjá lögfestar ákvarðanir, fjárlög næsta árs. Þannig ef við tökum skoðun þeirra fyrir einu ári þá var nákvæmlega sama umræðan, sem að síðan raungerðist að það var enginn munur á, þar sem við framkvæmdum það sem við sögðumst ætla gera. Ef við gerum það, sem við ætlum, þá er nánast enginn munur á þessu mati þeirra – sem er frekar jákvætt,“ segir Sigurður Ingi.
Búið er að kynna fjármálaáætlun 2025-2029 en þar eru óútfærð útgjöld sem verða svo útfærð í fjárlögum sem verða lögfest.
Sigurður segir að ríkisstjórnin muni styðjast við tillögur AGS og segir að það hafi ávallt verið gert. Þó verði ekki endilega fylgt öllum ábendingum.
„Ég átti góðan fund með sendinefndinni fyrir helgi og hún er ánægð með þá stöðu sem efnahagsmálin eru í á Íslandi. Það aðhald sem peningamál Seðlabankans og opinber fjármál ríkisstjórnar hafa náð, hafa þá trú að við séum að fara sjá niður verðbólguna og að það séu auknar líkur á mjúkri lendingu efnahagslífsins með minni hagvexti og aðlögun að meira jafnvægi. Þeir benda auðvitað líka á áskoranir,“ segir Sigurður.