Norska ríkið lagði fram greinagerð í áliti EFTA-dómstólsins þar sem íslenskir dómstólar leituðu álits hans á lánaskilmálum tveggja íslenskra banka. Álit dómstólsins var á þann veg að óskýrleiki lægi að baki vaxtaákvörðunum bankanna.
Norðmenn eru í sambærilegri stöðu og Ísland hvað það varðar að landið stendur utan ESB en er aðili að EES og EFTA.
Norðmenn sendu inn greinargerð í málinu sökum þess að þarlendir bankar eru að einhverju leyti með svipaða lánaskilmála og þeir íslensku.
Jóna Björk Guðnadóttir, yfirlögfræðingur Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF), segir að hún geri ráð fyrir að álit EFTA-dómstólsins hafi áhrif á norska banka.
„Noregur þarf að taka tillit til niðurstöðu ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins líkt og Ísland,“ segir Jóna.
Hún bætir því þó við að engin dómsmál séu í gangi í Noregi um skýrleika lánaskilmála.