Dúxaði Verzló með slétta 10

Ragna útskrifaðist með slétta 10 í meðaleinkunn.
Ragna útskrifaðist með slétta 10 í meðaleinkunn. Ljósmynd/Aðsend

Ragna María Sverrisdóttir útskrifaðist á dögunum sem dúx frá Verzlunarskóla Íslands, af eðlisfræðilínu á náttúrufræðibraut með fyrstu ágætiseinkunn, eða slétta 10 í meðaleinkunn. Ragna er fædd árið 2006 og er því ári á undan jafnöldrum sínum í námi.

Ragna hlaut einnig verðlaun í íslensku, stærðfræði og eðlisfræði við útskrift.

Hvernig fórstu að þessu?

„Ég reyndi bara að vinna jafnt og þétt og vera dugleg í að læra. Lykillinn er að hafa gott skipulag svo maður geti gert fleira með og ef maður finnur það snemma þá er maður á góðum stað,“ segir Ragna.

„Ef maður er með gott skipulag þá verða hlutirnir auðveldir. Það er því bara mikilvægt að ganga bara strax í öll verkefni og vera duglegur að sinna heimanáminu jafnt og þétt og þá virkar það svona vel.“

Margfaldur ólympíufari

Auk þess að hafa dúxað mun Ragna einnig taka þátt á Ólympíuleikunum í stærðfræði í ár en þeir verða haldnir í Bath á Englandi. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Ragna tekur þátt, en hennar fyrstu Ólympíuleikar voru í Ósló í Noregi, árið 2022. 

Það hlýtur að vera mjög krefjandi með náminu?

„Jú, en það er líka mjög skemmtilegt. Ég lagði auðvitað áherslu á námið, en það er bara gaman að taka þátt í þessum keppnum og æfingabúðum í útlöndum.

Svo hef ég líka keppt aðeins í líffræði en ég keppti líka á Ólympíuleikunum í eðlisfræði í fyrra, sem fóru fram í Tókýó í Japan sem var mjög gaman.“ 

Hvað finnst þér skemmtilegast af þessu öllu?

„Það er bara mjög gaman í skólanum og kennararnir eru mjög mjög fínir. Svo er alltaf mikið um að vera í skólanum og mjög gaman,“ bætir Ragna við.

„Ég er líka að fara að taka þátt í æfingabúðum með hinum norrænu þjóðunum í Danmörku í sumar, þar sem við fáum kennslu í ýmsum undirgreinum sem geta komið á stærðfræðikeppninni eins og talnafræði, fléttufræði, algebru og rúmfræði.“

Stefnir á frekara nám í stærðfræði

Spurð hvað taki við segist Ragna stefna á frekara nám í stærðfræði í haust. 

Hvað varðar ráð til þeirra sem vilja ná sama árangri og hún segir Ragna fólk eiga að vinna jafnt og þétt, vera skipulagt og duglegt og svo auðvitað gera sitt besta. Það sé lykillinn að árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert