Vinnur í kirkjugarði og stefnir á verkfræði

Gabríela Albertsdóttir útskrifaðist með 9,76 í meðaleinkunn nú á dögunum. …
Gabríela Albertsdóttir útskrifaðist með 9,76 í meðaleinkunn nú á dögunum. Myndin er samsett. Ljósmynd/Aðsend

Hin 19 ára Gabrí­ela Al­berts­dótt­ir er nýj­asti dúx Mennta­skól­ans við Hamra­hlíð en hún út­skrifaðist nú á dög­un­um af nátt­úru­fræðibraut með 9,76 í meðal­ein­kunn. Hún seg­ist þó ekki hafa stefnt að því að dúxa.

„Ég stefndi bara að því að fá eins hátt og ég gat í öll­um áföng­um, mark­miðið var aldrei sér­stak­lega að dúxa en ég svosem vissi af meðal­ein­kunn­inni minni og ég var bara mjög sátt með hana og mjög glöð síðan þegar kom svo í ljós að ég hefði dúxað,” seg­ir Gabrí­ela um áfang­ann í sam­tali við mbl.is.

Hvernig fórstu að þessu?

„Ég bara lærði og gerði mitt besta. Mér gekk vel á fyrsta ári og ákvað bara að ég myndi leggja mig hundrað pró­sent fram í að ná öllu svona vel aft­ur.“

Erfiðast að færa fórn­ir í fé­lags­líf­inu

Eru það ein­hverj­ar sér­stak­ar lær­dómsaðferðir sem þú ert að beita?

„Það er bara að glósa mikið og fylgj­ast vel með í tím­um, það borg­ar sig eig­in­lega alltaf. [...] það er al­gjör­lega þess virði að vinna fram í tím­ann og fylgj­ast með.“

En hvað var erfiðast í þessu öllu sam­an?

„Það var nátt­úru­lega kannski smá erfitt að fórna aðeins fé­lags­líf­inu þó ég hafi reynt mitt besta að halda jafn­vægi, en það er mjög erfitt að vera mjög virk­ur í fé­lags­líf­inu, og ætla að læra svona mikið. En maður get­ur það samt al­veg ef maður legg­ur sig fram. En já, maður þurfti smá að fórna þar.“

Aðspurð hvaða fög hafi verið mest krefj­andi og létt­ust nefn­ir hún ís­lensku og stærðfræði. Hún seg­ir ís­lensk­una vera krefj­andi í MH en stærðfræðina skemmti­leg­asta.

„Það er stærðfræðin, bara pottþétt. Það var skemmti­leg­ast, ekki endi­lega létt­ast,“ seg­ir Gabrí­ela og hlær.

Gabríela stefndi ekki að því að dúxa.
Gabrí­ela stefndi ekki að því að dúxa. Ljós­mynd/​Aðsend

Ljúfsárt að ljúka þess­um kafla

Hvað varðar framtíðina seg­ist hún stefna á lækn­is­fræðilega verk­fræði en fyrsta skrefið sé þó að hefja nám í raf­magns- og tölvu­verk­fræði við Há­skóla Íslands í haust. Sum­arið muni svo fara í að vinna við garðyrkju í Foss­vogs­kirkju­g­arði og út­skrift­ar­ferð til Costa Bra­va með skóla­fé­lög­un­um en þau halda út fyr­ir land­stein­ana nú á miðviku­dag.

En hvernig eru síðustu dag­ar eft­ir út­skrift bún­ir að vera?

„Það er svona [ljúfsárt], seg­ir maður kannski. Maður er glaður og þetta er skemmti­legt en svo er maður að kveðja mjög skemmti­leg­an kafla í líf­inu.“

Hvaða heillaráð mynd­irðu gefa öðrum sem væru til í að gera það sama og þú.

„Trúa á sjálf­an sig, trúa að þú get­ir þetta og þá nær maður að leggja sig fram al­veg hundrað pró­sent.“

Ljóst er að Gabrí­ela er búin að leggja mikið á sig á sinni mennta­skóla­göngu, aðspurð hvaða ein­kunn­ar­orðum hún muni lifa eft­ir í sum­ar legg­ur hún áherslu á hvíld.

„Ég held það sé bara, njóta og hafa gam­an á meðan ég get. Bara hvíla mig smá,“ seg­ir Gabrí­ela að lok­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert