Teygir sig suður fyrir Hagafell og gæti stækkað

Eldgos hófst klukkan 12.46 í dag.
Eldgos hófst klukkan 12.46 í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Syðsti hluti gossprungunnar sem opnaðist klukkan 12.46 í dag teygir sig rétt suður fyrir Hagafell, norðan Grindavíkur.

Gosið er ekki talið hafa náð hámarki, jarðskjálftar og aflögun mælast enn á svæðinu og því ekki útilokað að sprungan haldi áfram að stækka.

Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands.

Glögglega má sjá hvernig sprungan hefur stækkað á vefmyndavélum mbl.is.

Syðsti hlutinn sunnan vatnaskila

Samkvæmt síðustu mælingum var gossprungan talin 2,5 km að lengd. Hefur hún aðeins stækkað síðan þá.

„Syðsti hluti sprungunnar er sunnan vatnaskila og þar af leiðandi rennur hraun til suðurs en það er líklegt að það flæði þá með fram görðum vestan Grindavíkur,“ segir Jóhanna í samtali við mbl.is.

Hugsanlega þúsund rúmmetrar á sekúndu

Þyrla Landhelgisgæslunnar með jarðvísindamenn um borð er enn í loftinu að meta aðstæður og liggja nákvæmar mælingar á framleiðni eldgossins ekki fyrir.

En samkvæmt ónákvæmu mati gæti framleiðni gossins verið um þúsund rúmmetrar á sekúndu. Þykir eldgosið nokkuð kraftmikið, að sögn Jóhönnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert