Allir frambjóðendur nema Katrín réttu upp hönd

Allir forsetaframbjóðendur nema Katrín Jakobsdóttir réttu upp hönd í forsetakappræðum Morgunblaðsins þegar þau voru beðin um að rétta upp hönd ef þau styddu við veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO).

„Ég nefndi það hér á Akureyri [á forsetafundi Morgunblaðsins] þegar við ræddum þetta að mikilvægasta fyrir forseta er ekki einmitt að láta stýrast af sínum persónulegu skoðunum eða sýn. Heldur að vinna samkvæmt utanríkisstefnunni og það hef ég gert sem forsætisráðherra og mun gera sem forseti,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Hægt er að horfa á kappræðurnar í heild sinni með því að smella hér.

Jóni Gnarr snérist hugur

Halla Tómasdóttir skaut því inn í umræðuna að hún styddi við NATO sem varnarbandalag en ekki sem sóknarbandalag.

Jón Gnarr  greip orðið og svaraði fullum hálsi því sem Halla Tómasdóttir hafði sagt fyrr í kappræðunum um að Ísland ætti ekki að styðja við Úkraínu með vopnum, heldur með sáraumbúðum, stoðtækjum og manngæsku. 

Hann sagðist hafa verið gegn NATO meirihluta ævi sinnar og alinn upp sem efasemdarmaður um NATO.

„Síðan snérist mér hugur þegar að Rússar gerðu alvöru úr því að ráðast inn í Úkraínu. Eftir að hafa hitt yfirvöld í Úkraínu, [Volodimír] Selenskí og hans fólk, og þegar þeir eiga sér þann draum æðstan að fá að ganga í þetta bandalag til þess að fá þá vernd sem því fylgir. Við hvílum í þessari alþjóðlegu vernd og við getum ekki heldur og megum ekki leyfa okkur hræsni í því að sumir megi fá vopn og aðrir fá megi plástra eftir því sem hugnast okkur.

Hvað myndum við gera ef Rússar myndu ráðast á Ísland og að það ætti að beita hervaldi til að reka Rússa héðan. Myndum við segja: „Nei, við viljum hjálpargögn og við viljum tala við þá“. Við myndum aldrei gera það. Við myndum þiggja allt það vopnavald sem okkur væri boðið,“ sagði Jón Gnarr.

Baldur og Katrín tókust á

Baldur Þórhallsson sagði að lítið ríki eins og Ísland ætti allt undir því að alþjóðalög væru virt.

„Það er ótrúverðugt fyrir okkur að vera fólk í forsæti sem er ekki fylgjandi vestrænni varnarsamvinnu. Ég hef verið fylgjandi vestrænni varnarsamvinnu frá tímum kalda stríðsins vegna þess að hún er mjög mikilvæg, sérstaklega núna á þessum erfiðu hættutímum,“ sagði Baldur meðal annars.

Katrín svaraði þá Baldri.

„Ég hef gegnt embætti forsætisráðherra í á sjöunda ár, tekið þátt í öllu því alþjóðlega samstarfi sem fylgir því að vera í Atlantshafbandalaginu og þar hefur ekki nokkur maður efast um minn trúverðugleika í því að ég sé að fylgja samþykktri utanríkisstefnu og þjóðaröryggisstefnu,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert