Heimsmet var sett á Akranesi

Hinn mikli snillingur Ríkharður Jónsson óð í gegnum þýsku vörnina …
Hinn mikli snillingur Ríkharður Jónsson óð í gegnum þýsku vörnina og skoraði með þrumuskoti. Áhorfendur ærðust af fögnuði. Ljósmynd/Ólafur Árnason

Í dag, 30. maí, eru nákvæmlega 70 ár liðin síðan fram fór sögulegur knattspyrnukappleikur á Akranesi. Lið heimamanna mætti úrvalsliði frá Hamborg í Þýskalandi og lauk leiknum með jafntefli, 2:2.

Fjögur þúsund manns horfðu á leikinn. „Það eru þúsund fleiri en allir íbúar þorpsins. Mun slíkt vera heimsmet, að áhorfendur séu fleiri en íbúarnir,“ ritaði Atli Steinarsson íþróttafréttamaður, sem skrifaði um leikinn í Morgunblaðið.

„Geysileg eftirspurn var eftir farmiðum frá Reykjavík til Akraness. Fjallfoss fór fullskipaður, sömuleiðis Eldborg og 2 eða 3 mótorbátar. Bátar komu og frá Hafnarfirði og Keflavík og fjöldi fólks kom að í bifreiðum. Glampandi sólskin var á Akranesi og veðurblíða,“ sagði Atli.

Geysileg eftirspurn var eftir miðum með Fjallfossi og seldist upp …
Geysileg eftirspurn var eftir miðum með Fjallfossi og seldist upp á nokkrum mínútum. Skipið var alveg pakkað eins og myndin sýnir. Ljósmynd/Ólafur Árnason - Ljósmyndasafn Akraness

Atli Steinarsson var blaðamaður Morgunblaðsins í áratugi. Hann var frumkvöðull í íþróttablaðamennsku hér á landi. Atli stofnaði ásamt félögum sínum Samtök íþróttafréttamanna árið 1956 og var fyrsti formaður samtakanna. Það var lán fyrir greinarhöfund að vera samferða honum í nokkur ár á Morgunblaðinu. Mikill öðlingsmaður Atli.

Voru dáðir um allt land

Mikið hefur verið ritað um gullaldarlið Skagamanna og það að verðleikum. Það þótti auðvitað stórmerkilegt að lið frá svona fámennum bæ næði þeim árangri að verða sex sinnum Íslandsmeistari í knattspyrnu á árunum 1950-60. Skagamenn voru dáðir um allt land og fólk flykktist á leiki þeirra.

Og Akurnesingarnir voru uppistaðan í landsliði Íslands á þessum tíma. Í landsleik gegn Englandi 1956 voru níu Skagamenn í byrjunarliðinu en aðeins tveir frá Reykjavíkurfélögum. Í 16 manna landsliðshópi voru 10 Akurnesingar. Er það einsdæmi hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Umfjöllun Atla Steinarssonar í Morgunblaðinu um landsleik Íslands og Englands …
Umfjöllun Atla Steinarssonar í Morgunblaðinu um landsleik Íslands og Englands í ágúst árið 1956.

En snúum okkur aftur að leiknum gegn Hamborgarúrvalinu. Atli byrjar á því að lýsa vallaraðstæðum, sem voru ekki upp á það besta, þótt mikil vinna hafi verið lögð í völlinn.

„Malarlag hafði verið sett á völlinn, en það rótaðist upp svo að holur mynduðust á vellinum. Þetta lausa malarlag hafði vægast sagt mjög truflandi áhrif á samleik allan,“ segir Atli.

Skagamenn byrjuðu af meiri krafti en svo dró til tíðinda. „Á 13. mínútu leiksins varð annar bakvörður Akraness fyrir því óhappi að „kiksa“ – knötturinn hoppaði af vellinum í hendi hans. Algerlega óviljandi brot, og flestum til mikillar furðu var dæmd vítaspyrna á Akranes, sem Þjóðverjar skoruðu úr.“

Atli Steinarsson skrifar íþróttafrétt. Myndin er frá 1953.
Atli Steinarsson skrifar íþróttafrétt. Myndin er frá 1953. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Hamborgarmenn höfðu yfir í hálfleik 1:0 og var það ósanngjarnt að mati Atla. En seinni hálfleikurinn hófst með stórsókn Skagamanna.

„Knötturinn gekk frá manni til manns upp hægri kantinn – og hafnaði í marki Þjóðverjanna eftir skot frá Pétri Georgssyni.“

Um miðjan seinni hálfleikinn tókst Þjóðverjunum að brjótast í gegnum vörn og miðframvörður þeirra vippaði boltanum yfir Magnús Kristjánsson markvörð, 1:2.

En réttlætinu var ekki fullnægt. Gefum Atla orðið: „Á síðustu mínútum leiksins tókst Akurnesingum að breyta vörn í sókn og þá skoraði Ríkharður eitt af sínum snilldarmörkum. Hann fékk knöttinn eftir innkast nálægt miðjum velli, óð í gegnum þýzku vörnina og með þrumuskoti jafnaði hann fyrir Akranes.“ Lokatölur 2:2.

Hluti af grein Atla Steinarssonar í Morgunblaðinu um leikinn sögufræga …
Hluti af grein Atla Steinarssonar í Morgunblaðinu um leikinn sögufræga á Akranesi.

Knattspyrnumenn þorps sem telur 3.000 íbúa höfðu gert jafntefli við úrvalslið frá þýskri borg sem telur nærri hálfa aðra milljón íbúa.

Óhætt er að segja að Þjóðverjarnir hafi fengið glæsilegar móttökur eins og þeim er lýst í Morgunblaðinu.

„Geysilegur mannfjöldi fagnaði Þjóðverjunum er þeir komu til Akraness á laugardag. Ræður voru fluttar, lúðrar blásnir og kór söng. Þá fóru Þjóðverjarnir til fiskveiða og hrifust mjög af því að fá að borða eigin afla. Eftir leikinn var efnt til samsætis fyrir hina þýzku gesti. Þar voru Þjóðverjarnir leystir út með gjöfum, m.a. fékk hver þeirra litmynd af Akranesi.“

Í samsætinu fluttu ræður sex framámenn og Ragnar Jóhannesson skólastjóri flutti frumort kvæði um íþróttir og karlmennsku.

Akranesvöllur.
Akranesvöllur. Ljósmynd/ÍA

Hér kemur að lokum dagbókarfærsla frá Þóroddi Oddgeirssyni, bónda á Bekansstöðum í Skilmannahreppi (f. 1908, d. 1968), skrifuð 1954:

Umhverfi vallarins prýðilegt

„Sunnudaginn 30. maí komst ég út á Akranes til að horfa á knattspyrnu. Þar kepptu Þjóðverjar við knattspyrnulið Akraness á nýjum eða ný lagfærðum velli. Mér fannst leikurinn skemmtilegur á köflum, hefði þó mátt vera fjörugri stundum. Varð þarna jafntefli 2x2. Veðrið var afar gott og umhverfi vallarins prýðilegt, ný lagfært með grasbekkjum í halla sunnan í móti á gamla Jaðarstúninu.“

Þóroddur var einn af níu stofnendum Knattspyrnufélags Akraness (KA) árið 1924, sem hét reyndar Knattspyrnufélagið Njörður fyrstu þrjú árin.

Nokkrum dögum síðar unnu Skagamenn Hamborgarúrvalið 3:2 á Melavellinum að viðstöddum 6.000 áhorfendum. Áttu þeir sannkallaðan stórleik þennan dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert