„Miklu meiri hraði en við höfum séð áður“

Hraunið rann hratt yfir í gær.
Hraunið rann hratt yfir í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraði framrásar hraunsins frá gossprungunni í gær er sá mesti sem sést hefur frá því að goshrina hófst við Sundhnúkagígaröðina í desember á síðasta ári.

„Þetta var gríðarlegur hraði. Þetta var miklu meiri hraði en við höfum séð áður,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

Gróft mat vísindamanna á framleiðni eldgossins núna er um 50 rúmmetrar á sekúndu, að sögn Benedikts Gunnars. Þegar krafturinn var sem mestur í gær telja vísindamenn framleiðnina hafa verið um 1.500 til 2.000 rúmmetrar á sekúndu. 

Hefði verið erfitt að komast undan

Hraun flæddi í gær frá sprungunni í átt til Svartsengis og yfir Grindavíkurveg við Þorbjörn og meðfram varnargörðum sem lágu norðan og norðvestan við Grindavík.

Rann hraunið sömuleiðis upp að varnargörðunum við fjarskiptastöð Bandaríkjaflota, vestan við Grindavík, með þeim afleiðingum að stag slitnaði frá mastrinu.

„Það hefði ekki verið hægt að hlaupa undan þessu. Þetta er miklu meiri hraði heldur en við höfum séð áður. Þú hefðir átt í vandræðum með að koma farartækjum í burtu,“ segir Benedikt Gunnar um hraða útbreiðslu hraunsins.

Kortið sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar eins og þær voru …
Kortið sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar eins og þær voru um klukkan 17 í gær. Kort/Veðurstofa Íslands

Hraunið hætt að breiðast út

Samhliða því sem dregið hefur úr framleiðni gossins hefur hægst á framrás hraunsins. 

Hraunjaðarinn stendur nú í stað á meðan hraun safnast í hrauntjörnum og hraunbreiðan þykknar. 

„Hrauntungan sem náði vestur fyrir Grindavík hefur sáralítið hreyfst,“ útskýrir Benedikt Gunnar.

Hann segir nú töluvert minni líkur á að hraun flæði yfir varnargarða en áður. Aftur á móti væri ekki hægt að útiloka að slíkt myndi gerast, dragist eldgosið á langinn. Sú þróun tæki þó nokkrar vikur að því gefnu að framleiðni gossins aukist ekki til muna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert