Mesta virknin við gamla gíginn

Eldgosið á sjöunda tímanum í morgun.
Eldgosið á sjöunda tímanum í morgun. Skjáskot/mbl.is

Mesta virknin í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina virðist nú vera við gíginn sem myndaðist í eldgosinu sem hófst 16. mars. Er hann um miðbik sprungunnar. 

Fleiri gosop eru þó enn virk, þar á meðal norðarlega á sprungunni, en erfitt er að áætla fjölda þeirra sökum lélegs skyggnis við gosstöðvarnar. 

Þetta segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Funda í dag

Gosórói hefur haldist nokkuð stöðugur í nótt og jarðskjálftavirkni verið lítil á svæðinu.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni, sagði í gær við mbl.is að áætluð framleiðni eldgossins væri um 50 rúmmetrar á sekúndu. Um gróft mat var að ræða.

Böðvar segir engar frekari upplýsingar um framleiðni nú liggja fyrir. 

Jarðvísindamenn og viðbragðsaðilar funda í dag um stöðuna. Eru nýjar upplýsingar hugsanlega væntanlegar í kjölfarið.

Vefmyndavél mbl.is sýnir gosopin sem mest virkni er talin vera í. Hana má nálgast í hlekknum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert