Raunverð íbúða lækkaði

Raunverð íbúða lækkaði á síðasta ári
Raunverð íbúða lækkaði á síðasta ári mbl.is

Vísitala íbúðaverðs hækkaði umfram verðbólgu, en raunverð íbúða lækkaði í fyrra. Þetta sýna nýjustu mælingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem kynntar voru ásamt uppfærðu fasteignamati í gær.

Að sögn Jónasar Atla Gunnarssonar, hagfræðings hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, er það nokkuð óvenjuleg þróun þegar raunverð íbúða lækkar.

„Algengara er að raunverð íbúða hækki í takt við verðbólgu eða haldist stöðugt. Leita þarf aftur til áranna eftir efnahagshrunið 2008 til að sjá sambærilega raunverðlækkun á íbúðum, en þá varð tæp 30% raunverðlækkun á fasteignum.“

Raunverð lækkaði einnig á árunum 2001 og 2006.

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, Elmar Þór Erlendsson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs …
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, Elmar Þór Erlendsson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs HMS og Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá HMS. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lækkunartímabili líklega lokið 

Þrátt fyrir þessa lækkun á raunverði fasteigna, benda mælingar HMS til þess að því tímabili sé nú lokið. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs var meiri en tólf mánaða hækkun verðbólgu.

Að sögn Jónasar fylgir þessu þó aukinn þrýstingur og hækkandi verð og því sé óvenjulegt að sjá aukinn þrýsting á húsnæðismarkaði þar sem aðstæður til fasteignakaupa séu erfiðar.

Einnig megi rekja þrýstingsaukninguna til annarra þátta, s.s. óuppfylltrar íbúðaþarfar og kaupa Grindvíkinga á fasteignum í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Annað dæmi um aukinn hita á fasteignamarkaði er það hlutfall íbúða sem seldist yfir ásettu verði, en hann er svipaður nú og í lok árs árið 2016 og um mitt ár 2020.

Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS.
Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindavík mun hafa áhrif

Nýjar hagtölur endurspegla þó ekki kaup fasteignafélagsins Þórkötlu á eignum í Grindavík.

„Ástandið í Grindavík hefur því óbein áhrif og fólk býst því við almennt hærra húsnæðisverði.“

Fjöldi nýrra kaupsamninga í hverjum mánuði var að meðaltali 100 árið 2023, en kaup fasteignafélagsins Þórkötlu á 700 íbúðum samsvari um 40% eftirspurnaraukningu á íbúðamarkaði.

Áhrif þess munu þó að öllum líkindum vara til skamms tíma, en helstu langtímaáhrif á fasteignaverð munu áfram verða íbúðaskortur. Áætlanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gera því ráð fyrir að núverandi uppbygging muni aðeins mæta helmingi þeirrar eftirspurnar sem nú sé til staðar.

„Langtímaþrýstingur á húsnæðismarkaði mun því viðhaldast, svo lengi sem uppbyggingin er ekki í takt við þörfina,“ segir Jónas að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert