„Greinilega orðið miklar sviptingar“

Katrín Jakobsdóttir og Halla Tómasdóttir voru svo að segja hnífjafnar í síðustu könnunum sem gerðar voru fyrir kosningar.

Halla hefur nú tekið afgerandi forystu þegar um tíu þúsund atkvæði hafa verið talin, þó aðeins í tveimur kjördæmum.

„Það er nokkuð ljóst að ég er mjög nærri því sem var að mælast í skoðanakönnunum hvað varðar mitt fylgi, en hennar fylgi töluvert meira en skoðanakannanir mældu,“ segir Katrín, spurð hvernig hún bregðist við þessum fyrstu tölum.

Blaðamaður t.v. ásamt Katrínu í Efstaleiti í kvöld.
Blaðamaður t.v. ásamt Katrínu í Efstaleiti í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nóttin verði spennandi

„Eins má það sama sjá eiginlega hjá öðrum frambjóðendum, að þeirra fylgi er ekki alveg í samræmi við kannanir. En þetta bara horfir þannig við mér – ég vissi að þetta yrði mjög spennandi, og ég held að nóttin verði alveg spennandi – við eigum eftir að fá fleiri tölur.

Ég er fyrst og fremst rosalega stolt af minni baráttu, sem ég held að hafi verið málefnaleg, uppbyggileg og háð af reisn. Og ég er mjög þakklát mínu stuðningsfólki sem hefur verið óþreytandi síðustu vikur.

Þannig að fyrst og fremst er ég bara mjög glöð með undanfarnar vikur, vitandi allan tímann að kosningarnar gætu auðvitað farið í raun og veru hvernig sem er.

Mikill munur kemur á óvart

En kemur þetta þér á óvart?

„Kannski bara aðallega þessi mikli munur á könnunum, bæði á fylgi Höllu sem leiðir náttúrulega með afgerandi hætti eftir fyrstu tölur, en líka sjáum við aðra frambjóðendur umtalsvert fyrir neðan það sem kannanir voru að mæla, eins og Baldur [Þórhallsson],“ segir Katrín og bætir við:

„Þannig að hér hafa greinilega orðið miklar sviptingar.“

Býstu við að vaka eftir tölum í nótt?

„Já, ég á nú svo sem von á því að vaka eitthvað fram eftir. Við eigum alla vega eftir að fá fyrstu tölur úr fjórum kjördæmum, þannig að ég bíð spennt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert