Mest spennandi kosningar síðan 1980

Vigdís Finnbogadóttir hyllt á svölum heimilis síns eftir að hafa …
Vigdís Finnbogadóttir hyllt á svölum heimilis síns eftir að hafa verið kjörin forseti Íslands, 1980. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Líklegt þykir miðað við fylgiskannanir vikunnar að afar mjótt verði á munum milli efstu tveggja frambjóðenda til embættis forseta Íslands og segir Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur að það stefni í að kosningarnar verði þær mest spennandi síðan 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. 

Þá vann Vigdís kosningarnar með 33,8% atkvæða en Guðlaugur Þorvaldsson var með 32,3% atkvæða. Munaði aðeins 1.911 atkvæðum á þeim, en Vigdís hlaut 43.611 atkvæði og Guðlaugur 41.700. 

Getur það ekki verið erfitt þegar frambjóðandi hlýtur aðeins þriðjung atkvæða eða jafnvel minna?

„Eina fordæmið sem við höfum er Vigdís, en hún var eldsnögg að verða þetta sameinandi afl. Fólk tók hana í sátt mjög fljótt,“ segir Eva. 

Katrín umdeildari en Vigdís

Hún segir að nú geti svo farið að sá sem vinnur kosningarnar hljóti undir 30% atkvæða. 

„Segjum sem svo að Katrín vinni þetta, þá er hún miklu umdeildari fyrir en Vigdís var á sínum tíma. Þó svo að fólki líki almennt vel við hana. Það er líka hægt að segja það sama um Höllu Tómasdóttur, úr viðskiptalífinu,“ segir Eva. 

Hún segir að reynslan sýni að fólk taki forsetann yfirleitt í sátt og tekur Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem dæmi. 

„Hann var nú ekki allra, svo varð hann bara forsetalegur. Hann skipti bara algjörlega um gír og fór í það hlutverk,“ segir Eva sem kveðst þó ekkert hafa fyrir sér í þessu nema bara reynsluna af fyrri forsetum lýðveldisins. 

Hún bendir þó á að forseti Íslands fáist almennt ekki við mjög umdeild mál og því eigi þjóðin kannski auðveldara með taka hann í sátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert