„Skoðanakannanirnar eru ekkert alveg með þetta“

„Eitt er eins allavega að skoðanakannanirnar eru ekkert alveg með þetta því að þær voru ekki alveg með þetta síðast.“

Þetta segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við fyrstu tölum kvöldsins sem bárust úr Suður- og Norðausturkjördæmi, en Halla leiðir nú með 37,2% atkvæða.

Viðtalið í heild sinni er í myndskeiðinu hér að ofan. 

„Það kom mér ekki á óvart að tölurnar væru góðar, ég er búin að finna svo mikinn og sterkan meðbyr undanfarna daga og vikur, en þetta var kannski meira en ég átti von á,“ segir Halla og bætir við: 

„En þetta eru líka bara fyrstu tölur. Ég segi bara nóttin er ung og er ótrúlega þakklát, en ég fagna ekkert sigri því það er löng nótt fram undan held ég og fullt af kjördæmum ekki komin með sínar tölur ennþá.“

Orðræðan harðari nú en síðast 

Spurð hvort hún sé í spennufalli eftir fyrstu tölur kvöldsins segir hún svo ekki vera. Spennan sé frekar að keyrast upp. 

„Ég var afskaplega róleg að bíða eftir tölum. Var vongóð og bjartsýn og vissi að ungt fólk var sérstaklega að horfa til míns framboðs. Ég vissi að þar væri ég sterk en eins og ég segi ég þarf bara að anda ofan í magann og við öll þangað til að fleiri kjördæmi hafa skilað inn atkvæðum.“ 

Þetta er í annað sinn sem Halla býður sig fram til embættis forseta Íslands. Spurð hvernig kosningabaráttan nú sé öðruvísi en þá svarar hún: 

„Kannski öðruvísi að mér finnst á köflum að orðræðan hafi kannski ekki verið öllum samboðin. Ég lagði mig mikið fram um að lyfta mér upp fyrir það og sýna gott fordæmi og ég held að þjóðin sé að fagna því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert