Synjað um fjölskyldusameiningu vegna aldurs

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fordæmi eru fyrir því á undanförnum árum að fólk sem leitar eftir fjölskyldusameiningu hér á landi á grundvelli gildandi útlendingalaga uppfylli ekki skilyrði íslenskra laga, vegna þess að annað eða bæði hjóna voru yngri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins og ekki liggur fyrir viðurkenning hjúskapar þar um með úrskurði sýslumanns. Eru þá skilyrði dvalarleyfis ekki uppfyllt og umsókninni synjað. Þetta kemur fram í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Barnung eiginkona flóttamanns

Tilefni fyrirspurnarinnar er fullyrðing þess efnis að hælisleitandi frá Sómalíu sem fengið hefur vernd hér á landi, karlmaður á fertugsaldri, eigi von á eiginkonu sinni þarlendri hingað til lands ásamt fjórum börnum. Fullyrt er að eiginkonan sé aðeins 15 ára gömul og því á barnsaldri að íslenskum lögum.

Eitt af skilyrðum þess að fá útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar er að báðir aðilar hafi verið orðnir 18 ára þegar þeir gengu í hjónaband.

Undanþága „þegar sérstaklega stendur á“

Undanþágu frá aldursskilyrðinu má þó finna í hjúskaparlögum, þar sem segir að „þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess er þó heimilt að viðurkenna hjúskap hér á landi ef viðkomandi hafði náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn er viðurkenndur í því landi þar sem hjónavígslan fór fram“.

Í lögum um útlendinga segir að hafi verið stofnað til hjúskapar erlendis áður en aðili náði 18 ára aldri sé heimilt að líta til þess hvort hjúskapur hafi verið viðurkenndur með úrskurði sýslumanns eða ráðuneytis, samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga, og verið skráður í þjóðskrá.

Umsóknir afgreiddar áður en aðstandendur koma

Í svari Útlendingastofnunar kemur fram að umsóknir um fjölskyldusameiningu við flóttamenn séu afgreiddar áður en aðstandendur koma til landsins, á grundvelli gagna sem leggja þarf inn með umsókn, meðal annars afrits af vegabréfi og staðfests afrits af svokölluðu „apostille-vottuðu“ frumriti hjúskaparvottorðs.

Með „apostille“-vottun er átt við staðfestingu á að undirskrift og stimpill séu sannanlega útgefin eða vottuð af til þess bæru stjórnvaldi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert