Ástþór skýtur á Guðna í kveðju til Höllu

Ástþór Magnússon óskaði Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjörið. Nafn …
Ástþór Magnússon óskaði Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjörið. Nafn Guðna Th. Jóhannessonar kemur fyrir í kveðjunni. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/Eyþór Árnason

Ástþór Magnússon óskar Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjörið í fréttatilkynningu sem send var til fjölmiðla. Þar segir hann einnig að utanríkisstefna Íslands hafi þróast til hernaðarhyggju á vakt Guðna Th. Jóhannessonar.

Ástþór hóf tilkynninguna með því að óska Höllu innilega til hamingju með sinn glæsilega árangur í kosningunum í ár og þakkaði henni fyrir að halda á lofti friðarmálum í málflutningi sínum. Telur hann að það hafi átt verulegan þátt í sigri hennar.

Studdi Höllu árið 2016

„Eins og þú veist unnum við að því hjá Friði 2000 síðustu dagana fyrir kosningarnar 2016 að þú næðir kjöri þegar kannanir bentu til að valið stæði milli þín og Guðna Th.

Við höfðum af því verulegar áhyggjur að utanríkisstefnan myndi þróast til hernaðarhyggju á hans vakt. Þetta reyndist rétt ályktað,“ segir Ástþór til Höllu um kosningarnar fyrir átta árum.

Nú bíði Höllu krefjandi verkefni að leiða stjórnvöld „af braut hernaðarhyggju og þátttöku í ólöglegu stríði utan NATO ríkjanna, vopnakaupum íslenska ríkisins gegn vilja þjóðarinnar, á skjön við þjóðaröryggisstefnu landsins, NATO samninginn og sáttmála Sameinuðu þjóðanna“.

Ásakar ráðherra um landráð

Segir hann að utanríkisstefna þjóðarinnar sé komin á skjön við þjóðarvilja. Ráðherra séu komir út fyrir valdheimildir sína með því að nota fjármuni þjóðarinnar „til styrjaldar í fjarlægu landi utan NATO“.

„Við teljum að einstakir ráðherrar og jafnvel ríkisstjórnin í heild hafi brotið gegn landráðakafla almennra hegningarlaga með því að stofna öryggi ríkisins í hættu með því að hverfa af braut friðar og til þátttöku í stríði og vopnakaupum án þess að hafa til þess lagaheimildir eða leitað samþykkis þjóðarinnar, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Ástþór.

Hann segir að forseti Íslands verði nú að grípa inn í til að vinda ofan af „stríðsæðinu“. 

„Hætt er við að skrauthjal forseta á hátíðisdögum muni ekki eitt og sér vinna það verk,“ segir Ástþór einnig.

Bréf Ástþórs í heild sinni:

Kæra Halla,

Ég óska þér innilega til hamingju með glæsilegan sigur í forsetakosningunum og þakka þér fyrir að taka upp friðarmálin í þínum málflutningi og hvernig þú gerðir það með afgerandi hætti undanfarna daga. Á ferðum okkar um landið og fundum með kjósendum fundum við að þetta mikilvæga málefni brennur á þjóðinni og því líklegt að yfirlýsingar þínar til stuðnings friðarmálum hafi átt verulegan þátt í því að þú vannst þessar kosningar. Ég vona að raunin verði sú að framtíðarsýn Friðar 2000 sé nú loksins komin til Bessastaða.  

Eins og þú veist unnum við að því hjá Friði 2000 síðustu dagana fyrir kosningarnar 2016 að þú næðir kjöri þegar kannanir bentu til að valið stæði milli þín og Guðna Th. Við höfðum af því verulegar áhyggjur að utanríkisstefnan myndi þróast til hernaðarhyggju á hans vakt. Þetta reyndist rétt ályktað. 

Nú bíður þín sem forseta krefjandi verkefni að leiða stjórnvöld af braut hernaðarhyggju og þátttöku í ólöglegu stríði utan NATO ríkjanna, vopnakaupum íslenska ríkisins gegn vilja þjóðarinnar, á skjön við þjóðaröryggisstefnu landsins, NATO samninginn og sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ákvarðanir um vopnakaup hafa ekki farið í réttan farveg hjá Alþingi. Utanríkisstefna þjóðarinnar er komin á skjön við þjóðarvilja. Ráðherrar komnir út fyrir sínar valdheimildir með því að nota fjármuni þjóðarinnar til styrjaldar í fjarlægu landi utan NATO. Verið er að ögra stærsta kjarnorkuveldi heims sem hótar að svara fyrir sig með kjarnorkuvopnum. Eftir því sem ófriðurinn stigmagnast eykst hættan á því að staðið verði við þessa hótun.

Við teljum að einstakir ráðherrar og jafnvel ríkisstjórnin í heild hafi brotið gegn landráðakafla almennra hegningarlaga með því að stofna öryggi ríkisins í hættu með því að hverfa af braut friðar og til þátttöku í stríði og vopnakaupum án þess að hafa til þess lagaheimildir eða leitað samþykkis þjóðarinnar, t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðin lítur á forseta Íslands sem sinn öryggisventil og verndara. Við þær mjög ógnvænlegu aðstæður sem nú eru komnar upp, er ljóst að til að sinna því hlutverki þarf forseti að grípa í þær valdheimildir sem hann hefur samkvæmt stjórnarskrá til að vinda ofan af stríðsæðinu. Hætt er við að skrauthjal forseta á hátíðisdögum muni ekki eitt og sér vinna það verk. Forsetinn þarf nú að kalla saman þjóðina og fá fram afgerandi afstöðu um hvort þjóðin styður stríðsbrölt stjórnvalda eða hvort þjóðin vilji að forsetinn noti sínar heimildir til að fara aftur inná braut friðar og koma lögum yfir þá ráðherra sem nú eru orðnir uppvísir að landráðum með hátterni sínu.

Með þessu bréfi læt ég fylgja bókina Virkjum Bessastaði.

Með kærri kveðju og þökkum,

Ástþór Magnússon

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert