Halla nái að sannfæra þau sem kusu hana ekki

Eftirvæntingu mátti finna í loftinu í bakgarði heimilis Höllu er …
Eftirvæntingu mátti finna í loftinu í bakgarði heimilis Höllu er um 200 manns biðu eftir því að hún myndi ávarpa stuðningsfólk sitt í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór

Stuðningsfólk Höllu Tómasdóttur, nýkjörins forseta, er í engum vafa um að hún nái að sameina þjóðina á bak við sig, þrátt fyrir að hún hafi fengið um þriðjung atkvæða landsmanna. 

Eftirvæntingu mátti finna í loftinu í bakgarði heimilis Höllu er um 200 manns biðu eftir því að hún myndi ávarpa stuðningsfólk sitt í dag.  

Ársæll Aðalbergsson.
Ársæll Aðalbergsson. mbl.is/Eyþór

Frábær í öllum samskiptum

Stuðningsmaðurinn Ársæll Aðalbergsson sagðist hafa verið hóflega bjartsýnn á að Halla myndi vinna kosningarnar, í samtali við blaðamann.

„Álitið jókst þegar hún var í viðtölum. Hún er bara frábær í öllum samskiptum,“ sagði Ársæll. Hann kaus hana í gær og fyrir átta árum síðan.  

Hann sagði engan vafa á því að hún yrði góður forseti. „Maður sér það að hún er einstaklega vönduð manneskja. Við erum heppin að hafa fengið hana þó það hafi verið margir góðir frambjóðendur. Mér lýst bara mjög vel á hana í alla staði.“ 

Spurður hvort að Höllu muni takast að sameina þjóðina og fá stuðning þeirra sem ekki kusu hana sagði Ársæll að henni muni örugglega takast það mjög fljótt.  

„Maður sá það líka á hinum frambjóðendunum, hvað þau virtust vera ánægð með hana,“ sagði Ársæll.

Tekið skal fram að sig­ur Höllu í kosn­ing­un­um var af­ger­andi en hún hlaut flest at­kvæði í öll­um sex kjör­dæm­um lands­ins og var með yfir 30% fylgi í þeim öll­um.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir.
Ragnheiður Jóna Jónsdóttir. mbl.is/Eyþór

Flottari en síðast

„Ég er að fagna þessum fallega degi og fagna því að Halla Tómasdóttir verður forseti Íslands,“ sagði Ragnheiður Jóna Jónsdóttir.

„Ég kaus hana líka fyrir átta árum síðan, hún er vinkona mín. Ég hef fylgst með henni og ég treysti henni mjög vel. Hún hefur þennan þroska, reynslu og auðmýkt. Hún er miklu flottari núna en síðast.“

Ragnheiður Jóna telur að Halla muni setja sinn lit á forsetaembættið. Hún muni leita leiða til þess að leiða fólk saman og fá fleiri raddir til að sameinast um að leysa málin „í staðin fyrir að grafa skurði“.

Hún sagði einnig að íslenska þjóðin hafi í gegnum tíðina stutt forseta lýðveldisins óháð fylgi þeirra. „Við flykkjumst að baki forsetunum okkar, hvort sem við kjósum þá eða ekki.“  

Óskar Freyr Jóhannsson.
Óskar Freyr Jóhannsson. mbl.is/Eyþór

Því miður ekki með kosningarétt árið 2016

Óskar Freyr Jóhannsson var kominn til þess að styðja við bakið á Höllu og sagði það alls ekki hafa komið sér á óvart að hún hafi unnið. Hann kaus hana sjálfur í ár, en ekki fyrir átta árum.

„Ég var því miður ekki með kosningarétt á þeim tíma en ég nýtti mér hann heldur betur í þetta skiptið,“ sagði Óskar Freyr.

Hann sagði þessi úrslit vera það besta sem gæti komið fyrir Íslendinga á þessum tímapunkti. Hann segir einnig að hún sé einlægasta manneskja sem hann hafi nokkurn tíman kynnst.

„Ég held að það verði ekki erfitt fyrir hana að fá restina af þjóðinni á sinn vagn,“ sagði Óskar Freyr.

Agnes Lára Magnúsdóttir.
Agnes Lára Magnúsdóttir. mbl.is/Eyþór

Blaðamenn taki Höllu til fyrirmyndar

Agnes Lára Magnúsdóttir sagðist hrikalega ánægð með úrslit kosninganna. Hún hafi fylgt Höllu frá því að hún gaf kost á sér í ár, en hún kaus Guðna Th. Jóhannesson í forsetakosningunum árið 2016.

„Þetta kom mér ekki á óvart. Ég fann fyrir stemmningunni í gærdag á kosningaskrifstofunni. Maður fann þetta einhvern veginn að hún yrði næsti forseti,“ sagði Agnes Lára.

Hún telur að Halla verði einfaldlega „besti forsetinn“. Þá er hún 100% viss um að hún nái að sameina þjóðina á bak við sig.

Agnes Lára vill að blaðamenn og fjölmiðlamenn taki sér Höllu til fyrirmyndar.

„Þið sem blaðamann, viljið þið ekki taka orðum hennar Höllu Tómasdóttur, að við förum að hætta þessu niðurrifi í skrifum. Ég held það sé númer eitt, tvo og þrjú að blaðamenn og fjölmiðlamenn byrji,“ sagði Agnes Lára.

Fjöldi fólks kom saman til þess að sýna stuðning sinn …
Fjöldi fólks kom saman til þess að sýna stuðning sinn við nýkjörinn forseta, Höllu Tómasdóttur. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert