„Þjóðin hafi í reynd kosið með hjartanu“

Halla ávarpaði þjóðina af svölunum heima hjá sér á Klapparstíg.
Halla ávarpaði þjóðina af svölunum heima hjá sér á Klapparstíg. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er ekki búin að sofa mikið en mér líður ótrúlega vel. Hjartað er fullt af þakklæti og líka mikilli auðmýkt gagnvart því trausti sem þjóðin er að sýna mér og kannski þeirri staðreynd að það var metkosningaþátttaka og mér finnst eins og þjóðin hafi í reynd kosið með hjartanu,“ segir Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, í samtali við blaðamann mbl.is fyrr í dag.

Stórar fréttir að meðtaka

Aðspurð kveðst Halla ekki vera búin að meðtaka þetta allt saman.

„Auðvitað vöktum við eftir tölum hérna, ég og mínir nánustu. Síðan lögðum við okkur aðeins og svo tóku við samtöl við fjölmiðla. Nú er svo verið að setja upp hérna fyrir utan fyrir hið fræga vink,“ segir hún og hlær. 

Á þriðja hundrað manns mættu fyrir utan heimili hennar að Klapparstíg í miðborg Reykjavíkur.

„Ætli það náist nokkuð að meðtaka þetta fyrr en maður nær góðum nætursvefni og nær kannski að lesa öll þessi fallegu skilaboð sem manni berast. Ég verð að viðurkenna að þetta eru auðvitað mjög stórar fréttir fyrir hvern sem fær slíkan heiður frá sinni þjóð,“ segir Halla.

Halla segist full tilhlökkunar fyrir komandi tímum.
Halla segist full tilhlökkunar fyrir komandi tímum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Unga fólkið virkt í baráttunni

Halla lagði í kosningabaráttu sinni mikla áherslu á ungt fólk og að tala þeirra máli. Innt eftir því hver galdurinn hafi verið á bak við það að ná svona vel til þessa hóps segir hún tvennt hafa skipt mestu máli. 

„Annars vegar þá skiptir kynslóðajafnrétti mig öllu máli. Öll þau mál sem ég hef sett á oddinn set ég á oddinn vegna þess að ég vil að næsta kynslóð fái að taka við samfélagi og landi sem gefur þeim að minnsta kosti jafn góð tækifæri og við höfum notið.

Ég hef alltaf sagt að við höfum engan rétt á að taka út hagnað eða hagvöxt á okkar líftíma og á kostnað framtíðar þeirra og ég held að ungt fólk, og reyndar bara fólk á öllum aldri, taki þeim skilaboðum fagnandi að við, sem höfum völd og áhrif, öxlum ábyrgð á því sem bíður þeirra,“ segir hún.

Halla og eiginmaður hennar Björn sem hún segir mikinn heilsukokk.
Halla og eiginmaður hennar Björn sem hún segir mikinn heilsukokk.

„Hitt er ekki síður nauðsynlegt, og mér þykir ótrúlega mikilvægt að lyfta því, að við gáfum ungu fólki mikið pláss í okkar framboði, við valdefldum þau og treystum þeim. Til að mynda var ungt fólk með TikTok-reikninginn minn sem sagði mér bara hvað ég átti að gera. Það voru ungar konur sem unnu allt á samfélagsmiðlum með mér, margt ungt fólk með völd og áhrif.

Við vorum einnig með kosningastjóra unga fólksins, kosningaskrifstofu fyrir ungt fólk og reyndum virkilega að vekja athygli unga fólksins, ekki á því að þau ættu að kjósa mig, heldur á mikilvægi þess að taka þátt í lýðræðinu. Ef við gerum það ekki þá getum við kannski ekki kvartað yfir því að hafa ekki áhrif á framtíðina en ef við gerum það, og sérstaklega ef við kjósum forseta sem vill gefa ungu fólki völd og ábyrgð og leyfa þeim að taka þátt í að móta samfélagið, þá eru miklu meiri líkur á því að framtíðin verði þannig að okkur hugnist hún.“

„Jákvæð og uppbyggileg hreyfing í gangi“

Þá segist Halla hafa liðið eins og sigurvegara áður en úrslitin lágu fyrir þar sem hún fann fyrir svo miklum meðbyr.

„Ég stóð í Grósku í gær og horfði á allt þetta unga fólk og fólk á öllum aldri með klúta um hálsinn, þar með talið strákana. Ég get alveg sagt þér að þó við hefðum ekki borið sigur úr býtum þá leið mér eins og sigurvegara áður en ég þorði að treysta tölunum, bara á því að horfa á þetta því þarna var einhver hreyfing í gangi.

Ekki bara einhver einn frambjóðandi heldur hreyfing og ég trúi því að hreyfingar séu aflið sem breytir samfélögum og ég er stolt af því að þarna sé jákvæð og uppbyggileg hreyfing í gangi.“ 

Halla lagði mikla áherslu á ungt fólk í kosningabaráttu sinni.
Halla lagði mikla áherslu á ungt fólk í kosningabaráttu sinni. mbl.is/Óttar

Þorði að vera hugrökk

Eitt helsta einkennisorð Höllu, sem og gildi, í gegnum tíðina hefur verið hugrekki. En skyldi hún sjálf hafa þurft hugrekki til að bjóða sig fram í annað sinn? 

„Já, það þurfti alveg hugrekki. Það hefði verið auðveldara að gera það ekki, ég ætla bara að segja það hreinskilnislega, því það gekk svo vel síðast á endasprettinum, þó það hafi ekki verið auðvelt, að ég gat bara vel við unað að vera búin að gera þetta og þurfa ekki að gera það aftur,“ segir hún. 

„Það er hins vegar þannig að munurinn á 2016, þegar það var skorað á mig og ég var svolítið að bregðast við kalli annarra, og núna árið 2024 er að ég fann innra með mér að það var það mikil umhyggja í mínu hjarta fyrir Íslandi og tækifærunum sem blasa við en líka áskorunum sem ég tel tímabært að takast á við að ég hefði sennilega aldrei fundið frið í sálinni ef ég hefði ekki ákveðið að vera bara nógu hugrökk til að stíga fram og vekja máls á því.

Það versta sem hefði gerst væri að ég hefði vakið máls á því og það besta sem hefði gerst væri að ég hefði fengið tækifæri til þess að reyna að gera eitthvað í því með öðrum því það gerir enginn neitt hugrakkt einn.“

Segir Halla að það hafi líka þurft hugrekki til að halda áfram þegar fólki fannst ekki ganga nógu vel. 

„Eins og þegar fólk var að segja að ég væri að misreikna mig og þetta gæti jafnvel komið illa út fyrir mig ef það gengi ekki nógu vel en ég hafði ekki áhyggjur af því. Þegar ákvörðunin var tekin var ég alveg viss í mínu hjarta að ég ætti erindi og mín sýn á embættið myndi finna sinn farveg þegar fleiri fengju tækifæri til þess að hitta mig.“

Halla skömmu áður en fyrstu tölur voru kynntar í gærkvöldi.
Halla skömmu áður en fyrstu tölur voru kynntar í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vil vera forseti allra“

Aðspurð hvort hún hafi búist við að svo mikill munur yrði á henni og Katrínu Jakobsdóttur þegar úrslitin lágu fyrir segir Halla svo ekki vera.  

„Ég átti von á að það yrði mjög mjótt á mununum og kosninganóttin yrði enn meira spennandi, það er að segja ég gerði fastlega ráð fyrir því, en ég fann síðustu daga og vikur einhverja svona orku í loftinu. Alls staðar sem við héldum fundi þurftum við að bæta við stólum og tvöfalda rýmið svo ég fann þennan vaxandi meðbyr og vissi að það væri ekkert ólíklegt að svipað myndi gerast og gerðist árið 2016, að það kæmi meira upp úr kjörkössunum en könnunum. Ég var alveg undirbúin fyrir það,“ segir hún.

„En ég ber svo mikla virðingu fyrir Katrínu Jakobsdóttur og hennar þjónustu og mannkostum að ég átti alveg von á því að það yrði mjög mjótt á mununum á milli okkar. Ég er auðmjúk gagnvart því að hafa fengið meiri stuðning og þakklát auðvitað því það er vissulega gott en ég vil vera forseti allra og líka þeirra sem kusu aðra meðframbjóðendur mína.“

Halla ásamt fjölskyldu sinni á kosningavökunni í nótt.
Halla ásamt fjölskyldu sinni á kosningavökunni í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vigdís mikil fyrirmynd

Halla verður, líkt og flestir vita, önnur konan til að gegna embætti forseta Íslands og svarar hún því aðspurð að gríðarlega mikilvægt sé að konur séu fyrirmyndir og gegni slíkri stöðu.

„Það skiptir sköpum að mínu mati. Ég er ótrúlega stolt af því að í þremur efstu sætunum, af þessum tólf frambjóðendum, séu konur. Ég er stolt fyrir hönd Íslands að sex af tólf frambjóðendum hafi verið konur og ég held að það út af fyrir sig veki athygli. Ungar konur í framboðinu mínu hafa sagt að það sé jafnvel hvergi annars staðar sem kona hafi verið kjörin öðru sinni í beinni lýðræðislegri kosningu, að þetta sé oft bara undantekningin, þetta hafi gerst einu sinni,“ segir hún en tekur fram að hún hafi þó ekki haft tækifæri til að sannreyna það.

„En við vorum svo mikil fyrirmynd fyrir umheiminn árið 1980 þegar við höfðum hugrekki til að kjósa Vigdísi og hún var mér og minni kynslóð svo mikil fyrirmynd. Ég held að við séum þegar í forystu fyrir kynjajafnrétti á Íslandi og ég vonast til þess að sinna því verkefni mjög vel, bæði innan samfélagsins og utan,“ segir Halla og bætir því við að hún hafi líka vakið athygli á vaxandi vanda í kringum stöðu drengja og karla. 

„Ég vil vera jafnréttisforseti sem hugsar um jafnrétti í víðasta skilningi þessa orð, jafnrétti fyrir Íslendinga af erlendum uppruna, jafnrétti óháð fjárhagsstöðu og búsetu, óháð kyni og svo framvegis. Ég hugsa um jafnrétti sem stórt og mikilvægt hugtak og held að umhyggja, sem ég held að konur komi gjarnan með meira af að borðinu, og áhersla á frið sé jafnvel eitthvað sem við þurfum meira af. Eigum við ekki að segja að ég vilji að við verðum áfram hugrökk fyrirmynd hvað varðar jafnréttismál og ekki síður hvað varðar frið.“

Svefn, sund og góður matur

En hvað skyldi nú taka við hjá nýkjörnum forseta næstu daga?

„Næstu daga vonast ég til að ná upp svolitlum svefni og borða nokkrar heimatilbúnar máltíðir sem eiginmaðurinn eldar með börnunum okkar. Við höfum ekki átt margar fjölskyldustundir undanfarið. Það og kannski nuddtími og sundferðir verða í forgangi allra næstu daga en svo tekur við að ég þarf að finna góðan eftirmann fyrir það starf sem ég fór í leyfi frá og ganga frá lausum hnútum varðandi það allt saman.

Já, og safna kröftum þannig að ég geti komið kraftmikil og hugrökk og gengið í stóra skó Guðna þann 1. ágúst því ég vil gera þetta vel. Ég mun bretta upp ermar og vera dugleg en ég vil líka vera þannig forseti að ég reyni að virkja marga aðra með mér í þau verkefni sem ég tel að forseti geti beitt sér í.“

Halla faðmar fjölskyldu sína fyrir utan Grósku.
Halla faðmar fjölskyldu sína fyrir utan Grósku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja vinna með þjóðinni

Þá segir Halla fjölskylduna fulla tilhlökkunar fyrir komandi tímum.

„Það eru allir brosandi hérna þrátt fyrir lítinn svefn. Ég er svo vel gift að við eiginmaður minn deilum þeirri sýn að langa til að búa að heilbrigðu Íslandi. Hann er heilsukokkur og íþróttaálfur og hugsar mikið um þá hlið mála og ég hef mikinn áhuga á andlegri og samfélagslegri heilsu.

Eigum við ekki að segja að það í bland og að eiga svo tvo frábæra krakka sem eru bara ótrúlega vel lukkuð, þó ég segi sjálf frá, að við séum full tilhlökkunar að þjóna okkar frábæru þjóð og með þjóðinni. Það er mikilvægt fyrir mig að segja með þjóðinni því við viljum vinna með íslensku þjóðinni að þeim tækifærum og verkefnum sem blasa við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert