„Við höfum valið okkur mjög góðan forseta“

Jón Gnarr telur að fólk hafi fengið að sjá nýja …
Jón Gnarr telur að fólk hafi fengið að sjá nýja hlið á honum í kosningabaráttunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Bara mjög vel. Ég var búinn að átta mig á því í hvað stefndi þannig þetta leggst bara mjög vel í mig,“ segir Jón Gnarr í samtali við mbl.is spurður hvernig niðurstaða forsetakosninganna leggist í hann.

„Ég held við höfum valið okkur mjög góðan forseta og óska henni til hamingju og allrar blessunar í sínum verkefnum,“ segir Jón.

Jón Gn­arr hlaut 10,2% greiddra atkvæða eða samtals 21.244 at­kvæði. Halla Tómasdóttir hlaut 34,3% greiddra atkvæða eða 71.660 atkvæði.

Leyfir sér að taka frí í júlí

Gengurðu sáttur frá borði?

„Já ég geng mjög sáttur. Ég fór út í þetta af því mig langaði að ögra sjálfum mér og tel mig hafa vaxið og þroskast sem einstaklingur,“ segir hann. Jafnframt hafi fólk séð nýja hlið á honum sem styrkir hann.

„Ég er ákaflega stoltur af minni framgöngu í öllu þessu saman,“ segir hann.

Hvað tekur svo við?

„Ég er áfram í tökum á sjónvarpsþáttum fram í miðjan júlí og þá ætla ég að leyfa mér að taka frí,“ segir Jón.

„Síðan kemur bara í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir hann að lokum.

Kemur út á núlli

Fyrr í dag birti Jón færslu á Facebook þar sem hann fer yfir stöðuna nú þegar kosningunum er lokið. 

Hann segist reikna með að framboðið hafi kostað um átta milljónir króna og komi hann því út á sléttu.

Ég er bara búinn að vera hálf meir síðan ég vaknaði í morgun. Ekki útaf úrslitunum samt. Ég get nú bara mjög vel við unað og var nú búinn að átta mig á því hvert stefndi. Þetta er frekar svona spennufall,“ segir í upphafi færslunnar sem hægt er að nálgast að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert