Vilja ekki að Íslandsbanki verði seldur

Flokkur fólksins segir ríkisstjórnina ekki njóta trausts til að ráðast …
Flokkur fólksins segir ríkisstjórnina ekki njóta trausts til að ráðast í sölu Íslandsbanka. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Eggert Jóhannesson

Flokkur fólksins vill vísa frá frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um sölu Íslandsbanka. Þetta kemur fram í nefndaráliti flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd.

Frumvarp um sölu 42,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka verður tekið fyrir í 2. umræðu á Alþingi í vikunni en eins og fram hefur komið stendur til að klára sölu bankans í ár með útboði fyrir bæði almenna fjárfesta og fagfjárfesta.

Flokkur fólksins segir ríkisstjórnina ekki njóta trausts til sölunnar og segir þjóðina ekki vilja að eftirstandandi hlutur ríkisins verði seldur. Því sé að þeirra mati óforsvaranlegt að ráðast í söluna á þessum tímapunkti.

„Almenningur treystir ekki ríkisstjórninni“

„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur tvívegis selt hlut ríkisins í Íslandsbanka undir markaðsverði og voru lög brotin í síðara söluferlinu. Almenningur treystir ekki ríkisstjórninni til að ráðstafa ríkiseignum eftir þessi hrakföll,“ segir í nefndaráliti flokksins.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, mun flytja nefndarálit á Alþingi þar sem lagt verður til að frumvarpinu verði vísað frá.

Þá segir flokkurinn enn fremur að bankinn hafi skilað hagnaði síðustu ár og því megi ekki „fórna reglulegum tekjum af arðgreiðslum fyrir skammtíma ágóða af sölu“. Segir í nefndaráliti flokksins að ávinningurinn af sölunni gæti horfið á innan við 20 árum.

„Ríkisvæðing taps en einkavæðing hagnaðar er ekki réttlætanleg. Ríkið tók á sig tap bankanna árið 2008 en nú á að selja arðbæra starfsemi Íslandsbanka til einkaaðila,“ segir í nefndarálitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka