Hefði unnið án taktískra atkvæða

Halla Tómasdóttir hefði sigrað án taktískra atkvæða, að er kemur …
Halla Tómasdóttir hefði sigrað án taktískra atkvæða, að er kemur fram í könnun stjórnmálafræðinga. mbl.isKristinn Magnússon

Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, græddi talsvert á taktískum atkvæðum en hefði sigrað í forsetakosningunum án þeirra. Þá hefði hún einnig sigrað í kosningunum óháð því hvernig kosningakerfi væri notað.

Þetta eru niðurstöður netkönnunar með 2.877 svarendum sem framkvæmd var af Viktori Orra Valgarðssyni, nýdoktor í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Southampton-háskóla, og Indriða H. Indriðasyni, prófessor í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Kaliforníuháskóla í Riverside.

Í netkosningunni gátu svarendur kosið sér forseta bæði með núverandi kosningakerfi og með öðrum kosningakerfum: Raðvali með varaatkvæði, raðvali með Borda-talningu (e. Borda count) og samþykktarkosningu (e. Approval Voting).

8% atkvæða taktísk 

Samkvæmt netkosningunni græddi Halla Tómasdóttir verulega á þessari taktísku kosningu.

Um 26,7% svarenda (þegar gögnin eru vigtuð til að endurspegla úrslit kosninganna, eins og í öðrum niðurstöðum) sögðust helst vilja sjá hana sem forseta, eða um 8 prósentustigum færri en sögðust hafa kosið hana.

„Hins vegar var þetta hlutfall hæst allra frambjóðenda: næst kom Katrín Jakobsdóttir með 23,2%, sem bendir til þess að Halla hefði sigrað kosningarnar með um 3,5 prósentustigum ef enginn hefði kosið taktískt,“ kemur fram í tilkynningu um könnunina.

Baldur tapaði mestu fylgi vegna taktískra kosninga

Af efstu sex frambjóðendunum í kosningunum þá var það Baldur sem tapaði mest á taktískri kosningu en þeir sem vildu hann helst sem forseta voru líklegastir til að kjósa annan frambjóðanda taktískt, eða tæplega 38%. Skammt á eftir komu Jón Gnarr og Arnar Þór Jónsson.

Fram kemur að tilhneiging fólks til að kjósa taktískt hafi aukist verulega þegar leið á kosningavikuna.

Halla hefði sigrað hina í einvígi

Halla Tómasdóttir hefði sigrað í kosningunum óháð því hvaða kosningakerfi væri notað, að er kemur fram í könnuninni.

„Niðurstöðurnar sýna líka að Halla Tómasdóttir hefði að líkindum sigrað kosningarnar í öllum kosningakerfum:

Í raðvali með varaatkvæði, þar sem atkvæðum er endurúthlutað til frambjóðenda sem settir eru næst í forgang hjá kjósendum þangað til einn frambjóðandi er kominn með meirihluta atkvæða, hefði Jón Gnarr verið útilokaður síðastur (með 25,1% atkvæða á þeim tímapunkti á móti 28,9% Katrínar Jakobsdóttur) og Halla Tómasdóttir sigrað Katrínu Jakobsdóttur í lokaumferðinni með 63,6% atkvæða gegn 36,4%.“

Sé forgangsröðun svarenda í þessu kerfi notuð til að álykta hvaða frambjóðanda þeir hefðu kosið í mögulegu einvígi tveggja frambjóðenda í seinni umferð (út frá því hvorum frambjóðandanum þeir röðuðu ofar) kemur í ljós að Halla Tómasdóttir hefði sömuleiðis sigrað alla aðra frambjóðendur í seinni umferð.

Katrín hefði sigrað Höllu Hrund í einvígi

Hefði einvígi verið á milli Katrínar og Höllu Hrundar þá hefði Katrín sigrað, en aftur á móti ef Baldur væri í einvígi á móti Katrínu þá hefði Baldur unnið samkvæmt niðurstöðunum.

Þá hefðu 61,3% kjósenda veitt Höllu Tómasdóttur atkvæði sitt í samþykktarkosningu (þar sem svarendur gátu merkt við eins marga frambjóðendur og þeim sýndist) og 52,1% Baldri Þórhallssyni, en aðrir frambjóðendur nutu stuðnings minnihluta kjósenda í þeirri kosningu (Katrín Jakobsdóttir kom næst með 44,3% og Halla Hrund með 44,1%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert