Líst ágætlega á Höllu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, ræddi við blaðamenn að …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, ræddi við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formanni Vinstri grænna líst ágætlega á nýjan forseta Íslands þó að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hafi ekki borið sigur úr býtum.

„Mér líst bara ágætlega á nýjan forseta og óska henni bara til hamingju með kjörið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og settur formaður VG, inntur eftir áliti sínu á Höllu Tómasdóttur, nýkjörnum forseta.

Halla hafði um helgina betur gegn Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi formanni VG, sem sagði af sér sem forsætisráðherra, þingmaður og formaður flokks síns til þess að bjóða sig fram.

Fylgi VG í skoðanakönnunum hefur dvínað afar mikið, sem og hinna ríkisstjórnarflokkanna, en Vinstri græn mælast ekki lengur inni á þingi.

Katrín með „talsvert meira“ fylgi en VG

Finnst þér það táknrænt fyrir þann litla stuðning sem VG hefur og þann litla stuðning sem ríkisstjórnin hefur, að Katrín hafi ekki borið sigur úr býtum?

„Ég skal nú ekkert um það segja. Katrín hlýtur um 25% atkvæða, sem er talsvert meira en VG er að fá í skoðanakönnunum núna. Ég held að við getum alveg sagt það,“ svarar hann.

„Manni sýndist nú að sá stuðningur væri að koma mjög víða að.“

En heldurðu ekki að þessi „taktíska kosning“ sé vegna óvinsælda ríkisstjórnarinnar?

„Stjórnmálaskýrendur hafa talað um taktíska kosningu og ég ætla ekki að leggja neitt mat á það. Ég horfi bara á stöðuna sem er uppi núna, það er búið að kjósa Höllu Tómasdóttur sem næsta forseta og ég hlakka bara til samstarfs við hana,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert