Þriðji aukastafur skar úr um dúx

Frá útskrift skólans á föstudag.
Frá útskrift skólans á föstudag. Ljósmynd/Menntaskólinn í Reykjavík

Afar mjótt var á mun­um milli dúx og semídúx Mennta­skól­ans í Reykja­vík þetta árið. Reikna þurfti meðaltal upp á þriðja aukastaf. 

Álfrún Lind Helga­dótt­ir er dúx Mennta­skól­ans í Reykja­vík í ár og út­skrif­ast með ein­kunn­ina 9,765 af nátt­úru­fræðideild I. Inga Mar­grét Braga­dótt­ir er semídúx skól­ans og út­skrif­ast með ein­kunn­ina 9,761 af eðlis­fræðideild II. 

Mennta­skól­inn í Reykja­vík út­skrifaði 214 stúd­enta sl. föstu­dag við hátíðlega at­höfn í Há­skóla­bíó. Alls hlutu 15 nem­end­ur viður­kenn­ingu fyr­ir ágæt­is­ein­kunn á stúd­ents­prófi. 

Von­ast eft­ir nýju skóla­hús­næði

Rektor skól­ans, Sól­veig G. Hann­es­dótt­ir, vakti at­hygli á þeim hús­næðis­vanda sem ný­stúd­ent­arn­ir hefðu mátt þola á sinni skóla­göngu í MR. Neyðst hafi til að loka Casa Christi á fyrsta ári þeirra, húsi á mennta­skólareitn­um með 10 kennslu­stof­um. 

Ný­nem­um það árið var kennt í öll­um krók­um og kim­um, m.a. á lessal Íþöku, í Hátíðarsal, íþrótta­húsi, fund­ar­sal kenn­ara og meira að segja á kaffi­stofu kenn­ara. 

Ári seinna var tekið í notk­un leigu­hús­næði í Aust­ur­stræti, sem fylgdu ýms­ir byrj­unar­örðug­leik­ar. 

Sól­veig seg­ir ný­stúd­enta hafa sýnt þraut­seigju, dugnað og út­hald á þess­um árum.

„Til að geta búið kom­andi MR-ing­um góða aðstöðu til náms og sam­veru verðum við að vona að það standi til að byrja á vinnu við hönn­un á nýju skóla­hús­næði. Nem­end­ur MR eiga skilið þá lág­marksaðstöðu sem aðrir nem­end­ur í fram­halds­skól­um hafa haft árum sam­an: t.d. sam­komu­stað, mötu­neyti og aðgengi fyr­ir alla,“ sagði rektor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert