Hækka þarf þröskuld meðmæla

Mögulegar breytingar á stjórnarskrá verða til umfjöllunar á fundi sem …
Mögulegar breytingar á stjórnarskrá verða til umfjöllunar á fundi sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur boðað formenn allra flokka á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mögulegar breytingar á stjórnarskrá verða til umfjöllunar á fundi sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur boðað formenn allra flokka á sem sæti eiga á Alþingi. Þar verður m.a. rædd kjördæmaskipan, vægi atkvæða, ákæruvald Alþingis og líklega lágmarksfjöldi meðmælenda forsetaframbjóðenda.

„Þetta er vinna sem á sér langar rætur, teygir sig langt inn í síðasta kjörtímabil. Nú þegar hillir undir lok kjörtímabilsins er tímabært að fara að skoða hvað það er sem flokkarnir gætu sameinast um,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið.

Spurður um hvort fjallað verði um hugmyndir um breytingu á fjölda meðmælenda forsetaframbjóðenda, sem talsvert var rætt um í aðdraganda nýliðinna forsetakosninga, segist Bjarni líklegt að svo verði.

„Ég er þeirrar skoðunar að þann þröskuld ætti að hækka. Ég efast ekki um að þeir frambjóðendur sem höfðu mestan stuðning í forsetakosningunum hefðu farið létt með að komast yfir hærri þröskuld en þann sem er í dag,“ segir Bjarni.

„Á fundinum vil ég taka til umfjöllunar efni sem lítið hefur verið rætt til þessa sem er kjördæmaskipanin á Íslandi. Það er mín tilfinning að kjósendum í landinu þyki kjördæmin vera of stór, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég finn fyrir því að í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi er fjarlægðin á milli kjörinna fulltrúa og fólksins of mikil og ég vil kynna hugmyndir um breytingar sem eiga að draga úr stærð kjördæmanna,“ segir Bjarni og nefnir einnig að ræða þurfi um hvernig dregið verði úr misvægi atkvæða á milli kjördæma sem og jöfnun á milli þingflokka.

„Einnig vil ég ræða um hugmyndir um að gera tímabærar breytingar á ákæruvaldi Alþingis gagnvart ráðherrum sem almennt hefur verið talað um sem breytingar á Landsdómi,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert