Fyrsta borgaraþing Reykjavíkurborgar haldið í dag

Foreldrar á borgaraþingi á vegum Reykjavíkurborgar í dag.
Foreldrar á borgaraþingi á vegum Reykjavíkurborgar í dag. mbl.is/Arnþór

Líflegar umræður sköpuðust á borgaraþingi á vegum Reykjavíkurborgar í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt þing er haldið í borginni. 

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um mótun heildstærðar stefnu barna á aldrinum 0 til 6 ára, segir í samtali við mbl.is að það sé ánægjulegt að fyrsta borgaraþing á vegum borgarinnar fjalli um fyrstu ár í lífi borgarbúa.  

Tilefni borgaraþingsins er að skapa umræðu vettvang fyrir foreldra og börn þar sem hægt er að eiga í skoðanaskiptum um þjónustu við börn á aldrinum 0 til 6 ára. Þá sé hægt að koma á framfæri hvað sé vel gert og hvað megi betur fara í málaflokknum. 

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um mótun heildstærðar …
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um mótun heildstærðar stefnu barna á aldrinum 0 til 6 ára. mbl.is/Arnþór

Ólíkir hagsmunir foreldra

Magnea segir að hátt í 100 manns hafi mætt á borgaraþingið, bæði börn og foreldrar. Þá fagnar hún því sérstaklega hversu margir innflytjendur hafi mætt. 

„Það er sérstaklega ánægjulegt að svona margir innflytjendur hafi komið þar sem oft er erfiðara að ná til þessa hóps.“

Hagsmunir íslenskra- og erlendra foreldra eru ólíkir. Erlendir foreldrar töluðu fyrir því að bæta þyrfti upplýsingagjöf til foreldra. En flestir voru sammála um að brúa þyrfti bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Þá vildu margir foreldrar bæta hljóðvistunarkerfið í grunnskólum og töluðu jafnframt fyrir því að bæta þyrfti matinn á leikskólum borgarinnar. 

Þó segir Magnea að flestir séu ánægðir með faglegt starf leikskólana og þá séu foreldrar og börn almennt ánægð með þjónustuna þegar þeir eru komnir með hana.

Mikil óánægja hefur verið meðal foreldra vegna biðtíma eftir plássi á leikskólum borgarinnar. 

Eru með heimgreiðslur til skoðunar

Það er í meirihlutasáttmála borgarstjórnar að koma á fót samráði og móta stefnu fyrir aldurshópinn 0 til 6 ára sem taki mið af ólíkum hagsmunum ólíkra hópa. Þá er átt við hagsmuni foreldra, barna, atvinnulífsins og fagfólks. 

Í kjölfarið fór afstað stýrihópur sem á að móta stefnu um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0 til 6 ára. 

Stýrihópurinn hefur verið með til skoðunar ýmis mál sem viðkoma þessum aldurshóp eins og aðgengi að leikvöllum, heimgreiðslur, ummönnunartímabilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Í kjölfar borgaraþingsins mun stýrihópurinn taka tillögur foreldra og barna til skoðunar og meta fýsileika þeirra útfrá kostnaði, jafnrétti og hagsmunum barna. Þá segir Magnea að búist sé við því að hópurinn skili af sér tillögunum í haust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka