Vil ég lifa trú sjálfri mér eða fela mig?

Ingileif Friðriksdóttir sendi fyrir stuttu frá sér sína fyrstu skáldsögu fyrir fullorðna, bókina Ljósbrot, sem segir frá fólki sem lifir í lygi. Í bókinni glímir forsetaframbjóðandi við spurningu innra með sér: Vil ég lifa trú sjálfri mér eða fela mig?

Í viðtali í Dagmálum segir Ingileif að sagan sé að vissu leyti sprottið af hennar veruleika „því þarna er annars vegar unglingsstelpa og hins vegar fullorðin kona sem er í forsetaframboði, en ég gekk í gegnum það í mörg ár að vera í þessari togstreitu: ætla ég að vera sönn sjálfri mér og lifa í eigin skinni eins og ég upplifi mig eða ætla ég að leyfa ímyndinni að vera ofan á, að þröngva mér inn í þetta box sem samfélagið segir okkur að við eigum öll að búa inni í.

Þrátt fyrir að þær Kolbrún og Dóra séu hvor á sínum stað í lífinu þá eiga þær þetta svolítið sameiginlegt og þurfa að líta inn á við og skoða hvað verður ofan á hjá þeim. Þetta er eitthvað sem kviknar bæði frá eigin upplifun og líka upplifun margra í kringum mig sem hafa komið út úr skápnum. Ég held að gagnkynhneigt fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað það felst oft mikil sjálfsskoðun í því að taka þetta skref, það er ekki neitt sem maður gerir af því bara.“

Ingileif segist njóta þess að skrifa og hefur starfað við það, ekki bara að skrifa barnabækur heldur einnig sem blaðamaður og handritshöfundur. Fram að þessu hefur hún þó ekki látið það eftir sér að skrifa skáldsögu en rekur aðdragandann svo að 18. maí á síðasta ári, á afmælisdegi hennar, hafi þær María sest niður og tekið stöðufund, eins og þær gera annað slagið, rætt það sem þær hefðu verið að gera og hvað væri fram undan og hvað það væri sem þær langaði að væri fram undan. „Þá minnti María mig á það, vinalega, að ég væri búin að eiga mér þann draum að skrifa bók. Við höfðum nýlega eignast stelpu sem var rétt orðin mánaðargömul og María sagði við mig: Nú held ég að þú sért með rými til að skrifa þessa bók. Athugaðu hvort það komi ekki eitthvað þegar þú sest niður og skrifar, því að hugmyndin var löngu komin, varð til fyrir fimm árum.

Ég nýtti því fæðingarorlofið í þessi skrif, vissulega með barn sem var með kveisu og svaf ekki neitt, þannig að það gáfust ekki margar stundir. Ég reyndi samt að nýta hverja stund sem mér gafst og tókst að ljúka við hana því hún var tilbúin í byrjun þessa árs, þegar stelpan okkar var ekki orðin eins árs, sem ég var mjög ánægð með af því að ég hafði einsett mér það að klára hana fyrir eins árs afmælið hennar, áður en ég yrði búin í orlofinu. Það hafðist sem sagt og bókin kom út 18. maí 2024, akkúrat ári eftir að ég ákvað að byrja að skrifa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert