Bækur sem birta fjölbreytt fjölskylduform

Fyrir stuttu kom út barnabókin Úlfur og Ylfa: Sumarfrí, eftir þær Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur sem er önnur bókin í bókaröð. Bókaröðin um vinina Úlf og Ylfu varð til þegar þær áttuðu sig á því að bækur vantaði fyrir börn sem birtu fjölbreytt fjölskylduform.

Þær Ingileif og María tóku sig því til og skrifuðu saman bók sem heitir Vertu þú! og fjallar almennt um fjölbreytileikann. „En svo varð bókaflokkurinn um Úlf og Ylfu til í samvinnu við Sölku bókaútgáfu,“ segir Ingileif í viðtali í Dagmálum. „Bækurnar um þau segja frá tveimur vinum sem gera alls konar skemmtilegt, en það vill svo til að Úlfur á tvær mömmur. Það er enginn fókuspunktur í bókinni, þetta er ekki eitthvað sem eitthvert mál er gert úr, en það er til þess að börn eins og börnin okkar geti speglað sig og sinn veruleika í bókum. Því miður hefur það bara verið svo í gegnum tíðina að það er ekkert mikið af bókum um svona sýnileika.

Eins og ég sagði þá sáum við þetta svolítið með okkar elsta og ég man þegar hann var að byrja í grunnskóla þá voru krakkar svolítið mikið að velta þessu fyrir sér og spyrja hvort það væri hægt að eiga tvær mömmur og hvernig það virkaði. Þá þurfti að fara í að útskýra fyrir þeim því að þau höfðu eðlilega ekki séð neitt efni og þá vita þau ekki betur.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir öll börn að geta speglað sig í bókum, en ég veit að börn geta vissulega speglað sig í bókunum um Úlf og Ylfu þó að þau eigi ekki tvær mömmur, þetta er auðvitað bara bók um góða vini sem eru mikið í ímyndunarleikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert