Mótmæli af þessu tagi yrðu hvergi látin óátalin

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir að hvergi í hinum Vestræna heimi yrði það látið óátalið að mótmælendur vörnuðu því að ráðherrar kæmust til og frá ríkisstjórnarfundi. Hann vill gefa eftirlitsnefnd um störf lögreglu svigrúm til að skoða mál sem tengist mótmælendum sem lögregla beitti piparúða á, fyrir rúmri viku en þá hafði hópur mótmælenda lagst í veg fyrir ráðherrabifreiðar.

Guðmundur Ingi vísaði málinu áfram

Bjarni fór yfir málið í nýjasta þætti Spursmála. Orðaskiptin þar um má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig dregin saman í textanum hér að neðan:

Þarna kom til átaka. Það þurfti að fjarlægja fólkið af götunni til þess að koma ráðherrunum af fundinum. Og það fyrsta sem Guðmundur Ingi gerir er að hann beinir tilmælum til ráðuneytisstjórans þíns um að rannsaka eða fara yfir aðgerðir lögreglu þarna. Er það venjan að þeir sem sitja í þínum stóli í þinni fjarveru séu að gefa skipanir inn í forsætisráðuneytið að loknum slíkum fundum?

„Þetta eru óvenjulegar aðstæður. Í sjálfu sér var ekki annað að gera við þetta erindi annað en að senda það til dómsmálaráðuneytisins sem að síðan hefur í millitíðinni lagt fram minnisblað í ríkisstjórn um það sem vitað er um atburðina og þá staðreynd að málið fer til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu.“

Ekki viss um að hann hefði brugðist eins við

Hefðir þú vísað þessu til ráðuneytisins og síðan dómsmálaráðuneytisins ef þú hefðir setið þennan fund. Hefði þú séð tilefni til þess?

„Ég veit ekki hvort ég hefði talið nauðsynlegt að gera það með formlegum hætti enda er dómsmálaráðherra yfirmaður lögreglumála og var alveg við því að búast að ráðherra vildi fá svör eða eitthvað mat. Það er eðlilegt að þetta samtal eigi sér stað. Það er ekki óeðlilegt að menn spyrji spurninga um framgöngu lögreglunnar. Það er hins vegar verra ef menn fara að fella dóma án þess að hafa kynnt sér málin eða gefa lögreglunni ekki færi á að skýra aðstæður. Það er erfitt að setja sig í aðstæður þeirra lögreglumanna sem lenda í erfiðum aðstæðum. Við höfum mörg dæmi um það úr fortíðinni þar sem menn hafa verið með ásakanir á hendur lögreglunni að hún hafi gengið of hart fram.“

Aðstæður leystar upp

Segir Bjarni að aðstæður sem þessar yrðu ekki látnar viðgangast erlendis.

„Mér finnst persónulega ekki léttvægt þegar reynt er að koma í veg fyrir að ríkisstjórn Íslands komi saman. Þegar lagst er í götu ráðherrabíla og reynt með þeim hætti annað hvort að þvinga ráðherrana út úr bílnum og inn í æstan mótmælendahóp eða að koma í veg fyrir að bíllinn geti ekið á fundarstað. Ég þori bara að fullyrða að hvergi, hvergi nokkursstaðar í okkar heimshluta yrði það látið óátalið, það yrði gripið inn í með mjög skýrum að gerðum og þessu ástandi aflýst, það er að segja það yrði leyst upp.“

Lögregla beitti piparúða á mótmælendur þar sem þeir röskuðu ferðum …
Lögregla beitti piparúða á mótmælendur þar sem þeir röskuðu ferðum ráðherra til og frá fundarstað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki friðsöm mótmæli

Voru þetta þá ekki friðsöm mótmæli?

„Ég held að það sé langbest að meðan eftirlitsnefnd með störfum lögreglunnar að láta aðra dæma eða leyfa henni að komast að niðurstöðu hvoru megin við það að vera friðsamt þetta var. Dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að þetta hafi ekki verið friðsöm mótmæli og í hennar eðlilegu máltúlkun um það þá er bara vísað til þess að sá sem ekki hlýðir fyrirmælum lögreglu er ekki að mótmæla með friðsömum hætti. Og ég er svona hallur undir þá túkun. Menn eiga að hlýða lögreglunni. Menn hafa frelsi til að mótmæla, þar er búið að setja upp girðingu en ráðherrar verða að komast til ríkisstjórnarfundar á Íslandi. Og ef menn reyna að stöðva það þá er eðlilegt að lögreglan grípi inn í. Svo geta menn tekist á um með hversu miklum aðgerðum lögreglan gerir það. Þarna var piparúða beitt sem er tæki sem lögreglan að lögum hefur til þess að grípa til aðgerða með.“

Viðtalið við Bjarna Benediksson má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert