Stungu skemmtiferðaskipi í samband á Miðbakka

Skemmtiferðaskipið Fridjof Nansen.
Skemmtiferðaskipið Fridjof Nansen. Ljósmynd/Kay Fochtmann

Skemmtiferðaskipið Fridjof Nansen var í dag landtengt á Miðbakka og er fyrsta skemmtiferðaskipið sem er landtengt með rafmagni á Miðbakka. 

Landtengingin er samstarfsverkefni á milli Faxaflóahafna og norska skipaútgerðarinnar Hurtigruten Expeditions, en unnið hefur verið að landtengingunni í rúmt ár. Í tilefni af áfanganum var haldin athöfn við höfnina í dag. 

Faxaflóahafnir eru með fyrstu höfnum heims sem hafa þann möguleika fyrir hendi að geta landtengt skemmtiferðaskip með rafmagni.

Fyrsta skemmtiferðaskipið sem var landtengt með rafmagni var í ágúst í fyrra við Faxagarða. Faxagarðar taka við minni skemmtiferðaskipum, en Miðbakki við þeim stærri. 

Sparar 6.000 lítra af dísilolíu

Karin Strand, varaforseti Hurtigruten Expeditions, segir í samtali við mbl.is að landtengingin sé jákvætt skref fyrir umhverfismálin og með landtengingunni sé verið að vernda heilsu borgarbúa.

Talið er að með landtengingunni sé verið að spara hátt í 6.000 lítra af dísilolíu.

„Með því að styðjast við rafmagn í landtengingunni brennir skipið ekki olíu á meðan það er í höfn. Alveg eins og þegar flugvél lendir er slökkt á flugvélinni og það kemur ekkert flugeldsneyti út. Það sama á við hér. Svo með þessu verða loftgæðin miklu betri í Reykjavík,“ segir Karin.

Karin Strand ásamt sendiherra Noregs á Íslandi.
Karin Strand ásamt sendiherra Noregs á Íslandi. Ljósmynd/Kay Fochtmann

Miklar framfarir á næstu árum

Þá telur Karin að á næstu 10 til 15 árum muni stærstu hafnir í Evrópu og Bandaríkjunum landtengja öll skemmtiferðaskip með rafmagni. En þó segir hún að til þess að svo verði þurfi mikinn fjármagnsstyrk og hvatningu frá stórum stofnunum og fyrirtækjum eins og Evrópusambandinu og Alþjóðabankanum. 

Evrópusambandið hefur hins vegar sett það skilyrði fyrir hafnir, líkt og Faxaflóahafnir, að vera tilbúnar með landtengingar með rafmagni fyrir öll skip fyrir árið 2030.

Cecile Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi skoðar búnaðinn sem er …
Cecile Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi skoðar búnaðinn sem er notaður við landtenginguna Ljósmynd/Kay Fochtmann

Stórt skref fyrir Faxaflóahafnir

Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna og formaður Cruise Iceland, segir í samtali við mbl.is að landtengingin sé stórt skref fyrir Faxaflóahafnir og umhverfismálin.

Þá tekur hann undir með Karin og segir að með landtengingunni sé verið að bæta loftgæði borgarbúa til muna. 

„Fyrir Faxaflóahafnir er þetta mikilvægt skref, sérstaklega fyrir umhverfismálin. Við höfum horft lengi til Noregs, þau eru mjög framarlega í þessum málum og þau setja „standardinn“ mjög hátt,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert