Á að þola stóra skjálftann og geta tekið við fólki

Hönnun og bygging þjóðarsjúkrahússins gerir ráð fyrir að meðferðarkjarni og rannsóknarhús þoli stóra jarðskjálftann sem sérfræðingar eiga von á í framtíðinni. Reiknað er með skjálfta upp á 6,8 stig og að hann eigi upptök sín í Brennisteinsfjöllum.

Við hönnun hússins var leitað til sérfræðinga frá Kaliforníu þar sem orðið hafa afar harðir jarðskjálftar í gegnum tíðina.

Hönnun þessara mikilvægu mannvirkja miðar að því að nýja sjúkrahúsið standi ekki bara af sér svo öflugan jarðskjálfta heldur að það verði rekstrarhæft innan við klukkustund eftir að skjálftinn hefur riðið yfir.

Gunnar segir fólk þurfa að vita að sjúkrahúsið sé byggt …
Gunnar segir fólk þurfa að vita að sjúkrahúsið sé byggt til að takast á við þjóðaröryggi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Standi undir nafni

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH sem sér um bygginguna, er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og fer þar yfir stöðu framkvæmda, áætluð verklok og hvernig verkið hefur gengið.

Eitt af því sem lögð hefur verið mikil áhersla á við hönnun og byggingu þeirra mannvirkja sem mynda nýja þjóðarsjúkrahúsið er að það standi undir nafni sem þjóðaröryggissjúkrahús.

Til að svo megi verða var mikið starf og fjármunir sett í að tryggja að sjúkrahúsið geti staðið af sér stóra jarðskjálftann sem framtíðin mun líklegast bera í skauti sér. En markmiðið er ekki bara að húsið standi af sér skjálftann. Það verði rekstrarhæft og tilbúið að taka á móti þeim sem þangað þurfa að leita, klukkustund eftir að atburðurinn á sér stað.

Nýbygging Landspítalans klædd að utan í vetur.
Nýbygging Landspítalans klædd að utan í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Tvöfaldur háspennuhringur

Gunnar bendir á að flest hús séu hönnuð með þeim hætti að þau verndi þá sem eru innandyra. Flest hús geti þó skemmst verulega í slíkum hamförum og rekstur þeirrar starfsemi sem þar er geti stöðvast til lengri tíma. Markmiðið með hönnun lykilbygginga nýja sjúkrahússins er að starfsemi geti hafist þar mjög fljótlega eftir að skjálftinn hefur riðið yfir.

Tvöfaldur háspennuhringur er við byggingarnar og gert er ráð fyrir að neysluvatn geti orðið af skornum skammti. Varaafl er til staðar og Gunnar segir að á slíkum tímum þurfi fólk að vita að sjúkrahúsið er byggt til að takast á við þjóðaröryggi.

Hann segir þessa umræðu enn mikilvægari þegar allur almenningur horfir upp á atburðina í Grindavík sem staðið hafa undanfarin ár.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins en hér að ofan fylgir sá hluti viðtalsins þar sem Gunnar fer yfir hvernig staðið er að málum til tryggja þessa mikilvægu starfsemi, komi stóri skjálftinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert