Nýtt þjóðarsjúkrahús verði tilbúið 2029

Stefnt er að því að ljúka byggingarframkvæmdum við nýjan Landspítala í lok árs 2027. Þá eru engu að síður eftir stórir áfangar eins og að innrétta og tækjavæða byggingarnar. Eiginleg verklok eru áætluð árið 2029 og verður þá nýtt þjóðarsjúkrahús að fullu komið í notkun.

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins sem annast framkvæmdina, er gestur Dagmála í dag og segir frá stöðu framkvæmda og hvernig verkinu hefur miðað. Gunnar og hans fólk sjá einnig um tækjamál nýja sjúkrahússins, í samráði við lækna Landspítalans og gróft á litið er það hans mat að 75% tækja á nýja sjúkrahúsinu verði ný tæki en stefnt er að flutningi 25% þeirra tækja sem nú eru í notkun.

Unnið að gerð nýs Landspítala við Hringbraut.
Unnið að gerð nýs Landspítala við Hringbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérfræðiaðstoð frá mörgum löndum

Nýr Landspítali er einhver stærsta, kostnaðarsamasta og flóknasta bygging sem íslenska ríkið hefur ráðist í. Fjöldi innlendra og ekki síst erlendra sérfræðinga koma að hinum ýmsu byggingarstigum. Þannig er sérstakt teymi sérfræðinga frá Kanada sem aðstoðar við skipulagningu á flutningi á starfsemi sjúkrahússins, þegar þar að kemur.

Um er að ræða fjórar byggingar og hefur framkvæmdum við eina þeirra verið lokið og er það sjúkrahótel sem tekið var í notkun árið 2019.

Á Gunnari er að heyra að hann hefði viljað að framkvæmdahraði hefði verið meiri en í heild er hann sáttur með gang mála.

Stærsta bráðamóttaka á Norðurlöndum

Bráðamóttaka sjúkrahússins verður sú stærsta á Norðurlöndunum og geta níu sjúkrabílar verið innandyra á sama tíma, komi til þess stórslyss eða mikið álag skapist. Byggingarnar eru hannað til þess að standa af sér öfluga jarðskjálfta sem sérfræðingar hafa sagt Gunnari að muni koma.

Hvenær, er eðli málsins samkvæmt ekki vitað.

Við hönnun meðferðakjarnans, sem er hið eiginlega sjúkrahús var miðað að því að byggingin þoli ekki bara öfluga jarðskjálfta heldur verði rekstrarhæf innan klukkustundar frá því að skjálftinn reið yfir. Til að tryggja þetta þurfti að huga að fjölmörgum atriðum og fer Gunnar yfir það í viðtalinu.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert