Umbreytinga að vænta í veðri næstu daga

Hitaspáin fyrir landið kl. 15 á laugardag.
Hitaspáin fyrir landið kl. 15 á laugardag. Kort/Veðurstofa Íslands

Meðalveðurspá næstu tíu daga á landinu sýnir allt aðra mynd en verið hefur þá tíu daga sem á undan eru liðnir. 

Er þetta mat Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

Fyrstu tíu daga þessa mánaðar var hitinn 2,4 stigum undir meðaltali. Þá var hann nærri því fjórum stigum undir á Akureyri.

Um er að ræða fáheyrð kuldafrávik fyrir norðan, að því er Einar greinir frá á vefnum Bliku.

Fremur sólríkt verður að jafnaði fram yfir sumarsólstöður, að mati …
Fremur sólríkt verður að jafnaði fram yfir sumarsólstöður, að mati Einars. mbl.is/Arnþór

Allt önnur mynd

„En nú eru að verða breytingar. Spákort sem gildir næstu 10 dagana sýnir allt aðra mynd í meðalveðrinu. Spáð er hæðarhrygg í háloftunum.

Með umbreytingu þessari fylgir rigning og strekkings SA-vindur sunnanlands næstu tvo daga, en eftir það fremur sólríkt svona að jafnaði fram yfir sumarsólstöður,“ skrifar Einar.

„Sérlega hagfelld veðurstaða“

Hann greinir frá því að næstu tíu daga muni dálítið háþrýstisvæði sjást norðaustur af landinu og því fylgi ríkjandi hægur austan- eða norðaustanvindur. 

„Sérlega hagfelld veðurstaða ef úr rætist um vestanvert landið.“

Hann bætir þó við að líkur séu á því að svalara gæti orðið austan- og norðaustanlands „ef kemur til með að anda af hafi flesta daga“.

Þessu til stuðnings segir Einar að hitaspá ECMWF fyrir vikuna 17. til 24 júní sýni jákvæð hitafrávik yfir mest öllu landinu, en neikvæð frávik komi fram austan- og norðaustan til.

Reiknað er með að almennt verði frekar þurrt á landinu þessa vikuna. „Það ásamt spá um ríkjandi vindátt gefur til efni til bjartsýni og marga sólardaga, a.m.k. sunnan- og vestan til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka