Rétt ákvörðun að vísa deilunni áfram

Sólveig Anna segir jafnan undirbúningstíma deildarstjóra leikskóla réttlætismál fyrir umræddan …
Sólveig Anna segir jafnan undirbúningstíma deildarstjóra leikskóla réttlætismál fyrir umræddan starfskraft, börnin verið er að sinna og fjölskyldur þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, segir það hafa verið rétta ákvörðun að vísa kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar til ríkissáttasemjara. Enn eigi eftir að ræða stór mál og eru undirbúningstímar deildarstjóra leikskóla þar ofarlega á baugi. 

„Við erum brátt á leið inn til ríkissáttasemjara til þess að hefja fundinn og ætlum að vera þar í dag,“ segir Sólveig Anna þegar blaðamaður spyr um gang mála. 

Miðar ykkur eitthvað áfram?

„Nei því miður miður, en það var greinilega rétt ákvörðun að vísa deilunni því það er þó kominn viss gangur í samtalið sem að hafði ekki náð að mjakast af neinu viti af stað.“

Enn stór mál sem ekki hefur fengist niðurstaða í 

„Á þessum tímapunkti þá ætla ég ekki að lýsa því yfir að ég sé sérstaklega bjartsýn,“ svaraði Sólveig Anna spurð hvort hún væri bjartsýnni en áður á framhaldið?

„Það eru bara stór mál sem við erum að ræða, meðal annars undirbúningstímar fyrir þá fjölmörgu deildarstjóra á leikskólum borgarinnar sem eru Eflingarfólk, Eflingarkonur, og njóta miklu verri réttinda þegar kemur að því að undirbúa hið gríðarlega mikilvæga starf með börnunum sem að þær bera þó ábyrgð á,“ segir Sólveig Anna og útskýrir að hvað þetta varði þá hafi samninganefnd Eflingar mætt skilningsleysi af hálfu samninganefndar borgarinnar. 

Hún bætir þó við: 

„Við skulum sjá hvernig dagurinn í dag þróast.“

Deildarstjórar í Eflingu með ítarlegri starfslýsingu

Hvaða rök eru það sem samninganefnd Reykjavíkurborgar notar gegn því að þessi hópur Eflingarfólks fái undirbúningstíma? 

„Þær eru með undirbúningstíma, en þær eru með miklu færri undirbúningstíma en deildarstjórarnir sem eru í félagi leikskólakennara,“ segir Sólveig og útskýrir að Efling hafi verið að bera saman starfslýsingar, annars vegar þeirra deildarstjóra sem tilheyra félagi leikskólakennara og hins vegar þeirra deildarstjóra sem eru í Eflingu. 

„Við getum ekki betur séð en að starfslýsing deildarstjóranna sem eru í Eflingu sé ítarlegri en hinna þannig að ég treysti mér ekki til þess að svara því hvernig stendur á því að borgin áttar sig ekki á því að þetta er einfaldlega ekki bara réttlætismál þegar kemur að Eflingarfólki heldur er þetta auðvitað réttlætismál þegar kemur að börnunum sem að verið er að sinna og fjölskyldum þeirra.“

Segir Sólveig Anna ótækt að hægt sé að vera með deild á leikskóla þar sem ríkulegur undirbúningstími er til staðar til að undirbúa hið mikilvæga starf sem þar er sinn en á deildinni við hliðin á sé miklu minni undirbúningstími þó allar kröfur séu nákvæmlega þær sömu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert