Segir skuldasöfnunina ekki áhyggjuefni

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra segir að stóra ástæðan fyrir því að ríkissjóður sé enn rekinn með halla sé sá kostnaður sem hlotist hefur af atburðunum í Grindavík annars vegar og hins vegar vegna útþenslu hælisleitendakerfisins hér á landi.

Að öðru leyti segir hann stöðu ríkissjóðs góða og ekkert benda til annars en að hann verði í góðum færum til að standa við skuldbindingar sínar.

50 milljarða skuldasöfnun

Bjarni er nýjasti gestur Spursmála þar sem skuldasöfnun ríkissjóðs ber meðal annars á góma en gert er ráð fyrir að hann verði rekinn með 50 milljarða halla í ár.

Orðaskiptin um þessa stöðu má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér fyrir neðan:

„Við erum hérna með langtímaáætlun sem sýnir að útgjöld ríkissjóðs eru fallandi sem hlutfall af verðmætasköpun í landinu. Við höfum á undanförnum árum verið að taka minna til okkar, það er alveg sama hvort þú ert að tala um 2013, 2017, 2021, á alla þessa mælikvarða erum við að taka minna til okkar, ríkissjóður, af verðmætasköpuninni í landinu sem þýðir bara að við höfum verið að lækka skatta.“

Hagkerfið hefur bara stækkað umhvarf þetta. Hagkerfið hefur stækkað gríðarlega á þessum tíma, eins og þú nefnir réttilega.

Betri skattar og meiri hagvöxtur

„Betri skattar leiða til meiri hagvaxtar.“

En ykkur tekst ekki að reka ríkissjóð í jafnvægi.

„Það er náttúrulega ekki góð lýsing á því sem gerst hefur hérna.“

Það er 50 milljarða halli á ríkissjóði í ár.

„Er það mikið áhyggjuefni?“

Ég held að það sé mikið áhyggjuefni að safna 134 milljónum í skuldir á hverjum einasta degi þegar allt er á blússandi siglingu og núna er hagkerfið að skreppa saman.

„Það er bara ekki mikið áhyggjuefni að teknu tilliti til Grindavíkurmálanna og þess sem hefur verið að gerast í hælisleitendakerfinu. Við erum ekki með verulegt undirliggjandi vandamál fyrir ríkissjóð til að glíma við. Og við erum ekki að reka ríkissjóð til þess að vera alltaf í blússandi ballans með mikinn afgang og greiða með einhverjum hætti út arð. Við erum með ríkissjóð til þess að bæta lífskjör í landinu. Og það er skynsamlegt að taka á okkur höggin og vera svo með góðan afgang þegar vel gengur. Það er nákvæmlega það sem við höfum gert.  Við vorum með afgang að jafnaði frá 2014 og áfram og síðan lentum við í covid-faraldrinum og við erum að fá á okkur högg núna. Ef við horfum á Grindavíkurmálin og hælisleitendamálin þá eru þau stór hluti af þeim halla sem er af fjárlögunum og það er bara ekki rétt að það sé ekki eitthvað sem við ráðum við.“

Viðtalið við Bjarna Benediktsson má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert