„Við lærum af hvert öðru“

Fjölskyldurnar hittust í fyrsta sinn á þriðjudaginn og ræktuðu saman …
Fjölskyldurnar hittust í fyrsta sinn á þriðjudaginn og ræktuðu saman grænmeti. mbl.is/Eyþór

„Þetta er klárlega eitthvað sem við getum gert betur í og gert meira af,“ segir Carmen Fuchs, sérfræðingur í málefnum flóttafólks, iðjuþjálfi og lýðheilsufræðingur, í samtali við mbl.is um uppskeruverkefni í Hafnarfirði.

Uppskera er sameiginlegt verkefni stoðdeildar flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ og GETA-hjálparsamtakanna. Það hófst á þriðjudaginn en þá hittust 24 fjölskyldur, þar af 13 flóttafjölskyldur, til þess að rækta saman grænmeti á Öldutúni og kynnast.

Carmen segir lík verkefni vera til erlendis en að þetta sé í fyrsta sinn sem þetta sé gert hérlendis. Markmið verkefnisins er að tengja saman hafnfirskar fjölskyldur og fjölskyldur á flótta sem búa í Hafnarfirði og að fjölskyldurnar deili reynslu og þekkingu og aðstoða hver aðra við garðyrkjuna.

mbl.is/Eyþór

Vonast til þess að þau haldi sambandi

„Við lærum af hvert öðru. Þetta á bara að byggja upp tengsl,“ segir CarmenÍ sumar munu fjölskyldurnar hittast vikulega á þriðjudögum, en Carmen segist vonast til þess að þær muni áfram vera í sambandi í vetur.

„Börnin náttúrulega tengjast betur inn í samfélagið í gegnum skólakerfið en foreldrar sem eru kannski í vinnu þar sem þau eru kannski ekki með neina Íslendinga í kringum sig, þau eru seinna að tengjast. Þannig við viljum skapa þessi tækifæri þannig að fólk getur hist og verið meira saman,“ segir Carmen.

mbl.is/Eyþór

Markmiðið að eignast vini

„Til að hitta gott fólk, til að gera eitthvað skemmtilegt af því ég á tvö börn og annað þeirra er fatlað og ég vil finna eitthvað þar sem ég get tengt við fólk og mér finnst þetta vera mjög góður staður,“ segir Luchiia Bubnova, úkraínskur þátttakandi í verkefninu, í samtali við mbl.is, spurð út í ástæður sínar fyrir að taka þátt.

Hún segir markmið sitt með þátttökunni vera að eignast vini og kannski læra smá íslensku, en hún flutti til Íslands fyrir ári.

Hún segist einnig vera að gróðursetja í fyrsta sinn og að hún vilji læra að gera það.

mbl.is/Eyþór

Hafði aldrei tíma fyrir garðyrkju

„Mér fannst þetta bara spennandi verkefni og vildi bara leggja mitt af mörkum með því að taka þátt og kynnast fólki, segir Auður Viðarsdóttir, íslenskur þátttakandi í verkefninu, í samtali við mbl.is, innt um ástæður sínar fyrir þátttöku.

Hún segir félagslegu hliðina vera aðalástæðu sína fyrir að mæta en að hana hafi einnig alltaf langað til þess að vera meira í garðyrkju en að hún hafi aldrei haft tíma.

„Maður fær smá svona aðhald,“ segir hún og bætir við að hún ætli alltaf að reyna að mæta í vikulegu samkomurnar í sumar. 

„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Ég fýla svona smá ringuleið, en svo fer maður bara inn í þetta og í moldina og svo kemur þetta bara,“ segir Auður. 

mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert